30. nóv. 2011

Skýrsla um félagsþjónustu sveitarfélaga 2011

  • Felagsthjonustuskyrsla

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út skýrslu sem nefnist „Félagsþjónusta sveitarfélaga árið 2011“. Í skýrslunni eru í fyrsta sinn dregnar saman og gefnar út svo yfirgripsmiklar upplýsingar um félagsþjónustu sveitarfélaga. Markmiðið með útgáfu skýrslunnar er að birta tölulegar upplýsingar um þennan mikilvæga málaflokk og gera þær aðgengilegar fyrir sveitarstjórnarmenn, starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga og aðra þá sem vilja fylgjast með því hvernig framkvæmd félagsþjónustunnar þróast. Í skýrslunni er fjallað um þá þætti sem miðlæg gagnaöflun nær yfir svo sem félagslega heimaþjónustu, fjárhagsaðstoð, barnavernd og húsnæðismál. Tölulegar upplýsingar ná til málaflokksins á landsvísu en þeim er einnig skipt niður eftir landshlutum. Að hluta til eru þær einnig flokkaðar eftir íbúafjölda sveitarfélaga. Upplýsingar í skýrslunni eru fengnar frá ýmsum opinberum aðilum s.s. Hagstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndarstofu, Innheimtustofnun sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Þessu til viðbótar er að finna í skýrslunni ýmsan fróðleik sem lögfræði- og velferðarsvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman. Þar má nefna umfjöllun um nýtt starf félagsþjónustufulltrúa, kynningu á nýrri félagsþjónustunefnd sambandsins og umfjöllun um yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Í viðauka eru birt ný lög sem varða málaflokkinn.

Skýrsluna vann Valgerður Freyja Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga (valgerdur@samband.is).

Skýrslan er afgreidd á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga, Borgartúni 30 og kostar 2.140 krónur (m.VSK).