08. nóv. 2011

Dagurinn í dag tileinkaður baráttunni gegn einelti

  • Dagur gegn einelti

Verkefnisstjórn sem Samband íslenskra sveitarfélaga átti aðila í, stóð í dag fyrir sérstökum degi gegn einelti.  Í tilefni dagsins var undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti í Höfða. Hér að neðan má lesa sáttmálann

 

Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti

Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er

 

Einelti spyr ekki um aldur, þjóðfélagshópa eða kyn og það þrífst einfaldlega allsstaðar þar sem það er látið viðgangast. Ábyrgð okkar allra er því mikil og það er í okkar höndum að vinna bug á þessu þjóðfélagsmeini. Það er ekki flókið ef allir taka höndum saman og sammælast um ákveðna sátt , þjóðarsáttmála um jákvæð samskipti. Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur alla til að skrifa undir þjóðarsáttmálann á vefsíðunni www.gegneinelti.is og taka þannig þátt í baráttu gegn einelti.


Armbönd gegn einelti
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, settu stoltir upp gul armbönd í tilefni af degi gegn einelti. - mynd ih