31. okt. 2011

Dagur félagsmiðstöðvanna haldinn í fyrsta sinn á Íslandi

  • Ungt-folk

Miðvikudaginn 2. nóvember standa félagsmiðstöðvar á Íslandi og SAMFÉS fyrir Degi félagsmiðstöðvanna. Félagsmiðstöðvar víða um land verða opnar fyrir gesti og gangandi þennan dag.

Dagur félagsmiðstöðvanna er nú haldinn í fyrsta sinn en hann hefur síðast liðin sjö ár verið haldinn í félagsmiðstöðvunum í Reykjavík. Markmið hans er að gefa áhugasömum færi á að heimsækja félagsmiðstöðina í sínu sveitarfélagi eða hverfi, kynnast því sem þar fer fram, unglingunum og þeim viðfangsefnum sem þeir fást við með stuðningi starfsfólks félagsmiðstöðvanna. Allir eru velkomnir, sérstaklega foreldrar og „gamlir“ unglingar sem vilja rifja upp kynnin við gömlu félagsmiðstöðina sína.

Unglingarnir og unglingaráð félagsmiðstöðvanna bera hitann og þungann af undirbúningi dagsins og markmiðið er að sýna þverskurð af því gróskumikla og fjölbreytta starfi sem fer fram á hverjum stað. Megináherslan er á framlag og sköpunargleði unglinganna sjálfra enda unglingar eitt af mótandi menningaröflum samtímans og framtíðar.

Dagskrá félagsmiðstöðvadagsins verður breytileg milli félagsmiðstöðva. Í Hólmaseli og Fókus í Reykjavík verður dans og lifandi tónlisti, á Egilsstöðum ætla unglingar ásamt gestum og gangandi að mála veggi og gera fínt, allar félagsmiðstöðvar á Akureyri verða með opið upp á gátt  svo eitthvað sé nefnt. Víða verður boðið upp á kaffi, kakó, vöfflur og annað meðlæti en sums staðar er veitingasala fjáröflun unglinganna vegna ferðalaga eða annarra verkefna.

Opnunartími á félagsmiðstöðvadaginn er misjafn eftir félagsmiðstöðvum og því eru áhugasamir hvattir til að kynna sér frekari dagskrá á heimasíðum félagsmiðstöðvanna.

Hér er listi yfir félagsmiðstöðvar á Íslandi.