28. okt. 2011

Mikill samhljómur á ráðstefnu um aðstæður fatlaðs fólks

  • Harpa1

Hátt í 400 manns sóttu ráðstefnu um aðstæður fatlaðs fólks sem fram fór í Hörpu í dag. Kynntar voru niðurstöður viðamikillar rannsóknar á högum fatlaðs fólks við flutning málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga og rætt um hvaða lærdóm megi draga af þeim.

Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, flutti opnunarávarp ráðstefnunnar fyrir hönd velferðarráðherra. Hún rakti í stuttu máli forsögu tilfærslu ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga allt frá því að Landssamtökin Þroskahjálp gerðu samþykkt um málið á landsþingi árið 1992 og síðar Samband íslenskra sveitarfélaga á landsþingi haustið 1994:

„Tæpum tuttugu árum síðar er þessi mikla stjórnkerfisbreyting orðin að veruleika. Nú er mikilvægt að við fylgjum henni vel eftir, fylgjumst með framkvæmdinni og drögum lærdóm af þeirri reynslu sem þegar er fyrir hendi hjá sveitarfélögum sem sinnt hafa málefnum fatlaðs fólks sem reynslusveitarfélög eða á grundvelli þjónustusamninga.“

Anna Lilja sagði ástæðu til að vera stolt af þeirri viðamiklu rannsókn sem velferðarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga létu gera á stöðu þjónustu við fatlað fólk þegar tilfærslan átti sér stað. Rannsóknin sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi tók jafnt til notenda þjónustunnar, aðstandenda og starfsfólks: „Niðurstöðurnar veita okkur mikilvægar upplýsingar um það sem betur má fara í þjónustu við fatlað fólk og munu sömuleiðis verða okkur ómetanlegar um árangur af flutningi málaflokksins til sveitarfélaga.“

Tryggvi Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ræddi um hvaða lærdóm sveitarfélögin geta dregið af niðurstöðum rannsóknarinnar og Stella Víðisdóttir og Ragnar Þorsteinsson sögðu frá reynslunni í Reykjavík frá því að borgin tók að fullu við ábyrgð á þjónustu við fatlaða um áramótin. Ráðstefnugestum gafst síðan kostur á að heyra um reynslu Akureyringa af því að annast þjónustu við fatlað fólk allt frá því að bærinn tók það að sér sem reynslusveitarfélag árið 1996.

Lára Björnsdóttir ráðstefnustjóri segir áberandi að samhljómur hafi verið með þeim sem komu fram á ráðstefnunni, mat þeirra hafi verið að ákvörðun um flutning þjónustunnar til sveitarfélaganna hafi verið rétt og að mikilvægt sé að horfa til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með áherslu á valdeflingu og samráð við notendur þjónustunnar. Þá hafi verið ánægjulegt að heyra frá formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga að engar kvartanir hafi borist vegna yfirfærslunnar og augljóst að sveitarfélögin hafi mikinn metnað til þess að sinna þessu verkefni vel og bæta þjónustuna.

Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að gerð þingsályktunar um þjónustu við fatlað fólk og aðgerðaáætlun fyrir málaflokkinn. Lára segir að niðurstöður rannsóknarinnar og það sem fram kom á ráðstefnunni muni koma að góðum notum við þá vinnu.

Glærur fyrirlesara, myndir og lokaskýrsla rannsóknarinnar hafa verið birtar á vef ráðuneytisins.