24. okt. 2011

Styrkir til sveitarfélaga vegna aukinnar þjónustu við langveik börn og börn með ADHD

  • SIS_Felagsthjonusta_760x640

Auglýst er eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki til verkefna sem ætlað er að efla stuðnings- og nærþjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest. Styrkir verða veittir á grundvelli samstarfssamnings félags- og tryggingamálaráðuneytis, mennta- og menningarmála­ráðu­­neytis, heilbrigðisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var undirritaður 4. desember 2009. Sveitarfélög geta sótt um styrki vegna verkefna á eigin vegum eða sem unnin eru í samstarfi við einstaklinga eða félagasamtök.

Tekið verður við einni sameiginlegri umsókn frá hverju sveitarfélagi. 

Í ljósi þess hve margar umsóknir hafa borist við fyrri úthlutanir þarf sveitarfélagið að forgangsraða þeim verkefnum sem sótt er um.

Styrkhæf verkefni eru:

  1. Verkefni sem fela í sér félagslega stuðningsþjónustu, svo sem liðveislu og skammtímavistun til samræmis við það sem fötluð börn eiga kosta á samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.
  2. Verkefni sem hafa það markmið að gera langveikum börnum á leik- og grunnskólaaldri kleift að fá sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og/eða talþjálfun í skólum sínum þegar fagleg rök mæla með því.
  3. Verkefni sem fela í sér faglega leiðsögn sérfræðinga fyrir langveik börn á leik- og grunnskólaaldri sem ekki geta sótt skóla heilsu sinnar vegna.
  4. Verkefni sem fela í sér fræðslu og/eða stuðning fyrir kennara og annað starfsfólk skóla vegna nemenda með ADHD.
  5. Verkefni sem miða að bættri þjónustu leik- og grunnskóla við börn með ADHD.
  6. Önnur verkefni sem lögð er áhersla á í skýrslum tveggja starfshópa frá febrúar og apríl 2008 um þjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest.

Styrkveiting er ákveðin á grundvelli umsóknar og verður lögð megináhersla á að viðkomandi verkefni feli í sér, með beinum hætti, þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.

Gert er ráð fyrir að þeim verkefnum sem hljóta styrk að þessu sinni ljúki fyrir 31. desember 2012.

Frestur sveitarfélaga til að sækja um styrki rennur út 21. nóvember 2011.

Umsóknareyðublöð  eru aðgengileg á   heimasíðu velferðarráðuneytisins.

Nánari upplýsingar veitir Björn Sigurbjörnsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.
Sími: 545 8100,  netfang: bjorn.sigurbjornsson@vel.is

 

Verkefnisstjórn.