25. feb. 2011

Ný reglugerð um trúnaðarmenn fatlaðs fólks

  • SIS_Felagsthjonusta_760x640

Ný reglugerð velferðarráðherra (nr. 172/2011) hefur verið birt og tekið gildi. Reglugerðin er sett á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks, eins og þeim var breytt í tilefni af yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga. Trúnaðarmenn eiga aðfylgjast með högum fatlaðs fólks og vera því innan handar við hvers konar réttindagæslu, hvort sem það er vegna meðferðar einkafjármuna þess, þjónustu sem það á rétt á eða varðandi önnur persónuleg réttindi eða einkamál þess. Trúnaðarmaður skal vera sýnilegur í störfum sínum, halda reglulega fundi með fötluðu fólki á sínu svæði og standa fyrir fræðslu fyrir fatlaða einstaklinga og þá sem veita þeim þjónustu.

Samkvæmt reglugerðinni verða trúnaðarmennirnir átta talsins og skiptast þeir milli landshluta með eftirfarandi hætti:

  • Á þjónustusvæði Reykjavíkur og Seltjarnarness skulu starfa tveir trúnaðarmenn.
  • Kópavogur, Garðabær, Álftanes, Mosfellsbær og Kjós skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
  • Hafnarfjörður og Suðurnes skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
  • Vesturland og Vestfirðir skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
  • Norðurland vestra, Akureyri og Norðurþing skulu hafa sameiginlegan trúnaðar­mann.
  • Austurland og Hornafjörður skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
  • Vestmannaeyjar og Suðurland skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.

Trúnaðarmennirnir starfa á vegum velferðarráðuneytis sem útvegar þeim starfsaðstöðu og annað sem þeim er nauðsynlegt vegna starfs síns. Skipun trúnaðarmanna fer fram á grundvelli tillagna frá heildarsamtökum fatlaðs fólks og getur ráðuneytið getur samið við þessi samtök um að leggja trúnaðarmanni til starfsaðstöðu þar sem því verður við komið.

Þá eina má skipa trúnaðarmenn sem hafa þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðs fólks. Leitast skal við að skipa trúnaðarmenn sem hafa menntun sem nýtist í starfi trúnaðarmanns.