29. maí 2017

Lýðheilsugöngur FÍ í öllum sveitarfélögum í september 2017

 

Í tilefni af 90 ára afmæli Ferðafélags Íslands þann 27. nóvember 2017 hyggst félagið bjóða uppá lýðheilsugöngur í öllum sveitarfélögum landsins nú í september. Gert er ráð fyrir að farnar verði fjórar göngur í hverju sveitarfélagi, ein á viku þennan mánuð.

Tilgangur gangnanna er að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap. Ferðafélagið vill með þessu leggja sitt af mörkum til að stuðla að bættri lýðheilsu íbúa landsins og auka líkamlega, andlega og félagslega vellíðun og meðvitund um umhverfið. Ferðafélagið telur mikilvægt að fá sveitarfélög til samstarfs um verkefnið og mun væntanlega hafa samband við öll sveitarfélög landsins á næstunni í því skyni. Þetta er jákvætt framtak hjá ferðafélaginu og Samband íslenskra sveitarfélaga vonar að sem flest sveitarfélög muni taka þátt í því.