19. maí 2017

Hlutverk sveitarfélaga til að tryggja að ungt fólk geti staðið á eigin fótum og orðið virkir samfélagsþegnar

Á vorþingi Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins, sem haldið var 28.-30. mars 2017, var m.a. fjallað um skýrslu um stöðu ungs fólks í Evrópu og hvað sveitarfélög geta gert til að auðvelda þeim að verða sjálfstæðir einstaklingar og fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Í kjölfarið samþykktu þingfulltrúar tilmæli til sveitarfélaga um nýsköpun í stefnumótun og aðgerðir í málefnum ungs fólks, s.s. að því er varðar samráð, menntun, heilbrigðisþjónustu, húsnæði, atvinnu og aðgerðir til að gera þeim kleift að taka virkan þátt í vinnumarkaðinum. Mælst er m.a. til að sveitarfélög og svæði:

 • Setji á fót upplýsinga- og ráðgjafarmiðstöðvar fyrir ungt fólk.
 • Tryggi mannréttindamenntun í skólum, styrki tengsl formlegrar og óformlegrar menntunar annars vegar og tengsl æskulýðssamtaka, frjálsra félagasamtaka og menntastofnana hins vegar.
 • Tryggi viðeigandi menntun eða þjálfun fyrir ungt fólk sem á undir högg að sækja.
 • Auki aðgengi að starfsnemastöðum og framboð menntunar fyrir fólk eldra en 18.
 • Auki framboð starfa fyrir ungt fólk með samstarfi opinberra aðila og einkageirans og stuðningi til ungra frumkvöðla.
 • Komi á kerfi þar sem starfsmenntum og sjálfboðavinna telst til starfsreynslu.
 • Tryggi framboð á ódýru húsnæði, lánum og fjárstuðningi vegna húsnæðis fyrir ungt fólk.
 • Setji á fót húsnæðisúrræði þar sem ungt fólk getur búið tímabundið (2-3 saman) ásamt starfsmanni og deilt heimilisverkum.
 • Sjái til þess að ungt fólk eigi kost á lánum fyrir tryggingum fyrir leigusamningum.
 • Bjóði upp á e.k. lífsleikniþjálfun og aðstoð til að gera ungu fólki kleift að búa sjálfstætt.
 • Bjóði reglulega upp á kynfræðslu, og fræðslu um geðheilbrigði, ofbeldi, einelti o.fl.

Einnig var hvatt til nánara Evrópusamstarfs í málefnum ungs fólks.