Fyrsta heilbrigðisstefna landsins í mótun

Sveitarfélögin hafa mikilvægu hlutverki að gegna innan heilbrigðiskerfisins með þeirri þjónustu sem þeim ber að veita samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um málefni aldraðra og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í drögum að heilbrigðisstefnu, þeirri fyrstu sem hefur verið mörkuð hér á landi, er lagt til að ákvarðanir um heilbrigðisþjónustu séu teknar sem næst þeim sem þurfi á þjónustunni að halda. 

Sveitarfélögin hafa mikilvægu hlutverki að gegna innan heilbrigðiskerfisins með þeirri þjónustu sem þeim ber að veita samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um málefni aldraðra og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í drögum að heilbrigðisstefnu, þeirri fyrstu sem hefur verið mörkuð hér á landi, er lagt til að ákvarðanir um heilbrigðisþjónustu séu teknar sem næst þeim sem þurfi á þjónustunni að halda. 

Stefnan er mörkuð til ársins 2030 og vonar Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, að mörkun hennar muni fara fram í góðri og almennri sátt. 

Heilbrigðisstefnan er sett fram sem leiðarljós þar sem dregnar eru fram þær megináherslur sem eiga að einkenna gott heilbrigðiskerfi í þágu allra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Til að hrinda áætluninni í framkvæmd er gert ráð fyrir að sett verði aðgerðaáætlun til fimm ára í senn, sem endurskoðist árlega á meðan heilbrigðisstefnan er í gildi.

Drögin voru nýlega birt í samráðsgáttríkisins og er umsagnarfrestur til 19. desember nk

Í stefnudrögunum segir m.a. að mikilvægt sé að heilbrigðisþjónusta sé veitt á viðeigandi þjónustustigi og að öllum sé ljóst, hvar skilin liggi hverju sinni varðandi hlutverkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Annars sé hætt við að notendur fái ekki þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og gjaldi fyrir deilur milli þessara aðila um kostnaðarskiptingu. Æskilegast sé að ákvarðanir um þjónustu séu teknar sem næst notanda og að náin samvinna sé á milli heilbrigðisstofnunar og sveitarfélags þar sem viðkomandi notandi býr.

Enn fremur segir að í ljósi þess að sveitarfélögin séu umfangsmiklir veitendur að félagsþjónustu og þar sem skilin milli þeirrar þjónustu og þjónustu heilbrigðiskerfisins séu ekki alltaf skýr, sé mikilvægt að gott samstarf sé á milli ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum.

Til að tryggja að heilbrigðisþjónusta sé í samræmi við þarfir og væntingar notenda þurfi jafnframt að kanna reynslu og viðhorf notenda reglubundið með þjónustukönnunum. Niðurstöður slíkra kannana þurfi að vera sýnilegar og notaðar í reglulegu umbótastarfi líkt og gæðaáætlun Embættis landlæknis gerir ráð fyrir.

Þá er ástand í heilbrigðismálum sagt almennt gott. Heilbrigðiskerfi landsmanna standi þó frammi fyrir mörgum áskorunum, þar á meðal aukinnar tíðni heilabilunar samfara hækkandi ævilíkum þjóðarinnar og langvinnra sjúkdóma á borð við krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og geðsjúkdóma. Offita sé jafnframt vaxandi vandamál og aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé að sumu leyti misskipt. Af öðrum áskorunum sem nefndar eru má nefna mönnum heilbrigðisþjónustunnar, ný lyf og lyfjamisnotkun og kaup á heilbrigðisþjónustu.

Tækifærin sem felist í þessum áskorunum eru að sama skapi sögð mörg, s.s. í heilsueflingu og bættri lýðheilsu, góðri geðheilsu og andlegu heilbrigði, góðu aðgengi að öruggum lyfjum og skynsamlegri lyfjanotkun og tækninýjungum í heilbrigðisþjónustu svo að eitthvað sé nefnt.  

Íslenska heilbrigðiskerfið að mörgu leyti gott og árangur þess góður í alþjóðlegum samanburði eins og til dæmis má sjá af reglulegum úttektum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD – Health at a Glance). Innan þess starfar vel menntað og hæft starfsfólk á öllum sviðum. Sátt ríkir um að þjónustan skuli fjármögnuð af almannafé og það er almennur og mikill stuðningur við að heilbrigðismál séu í forgangi við ráðstöfun fjár úr sameiginlegum sjóðum. Grunnskipulag heilbrigðiskerfisins á landsvísu, með einni öflugri heilbrigðisstofnun í hverju heilbrigðisumdæmi, veitir sveigjanleika sem gerir það mögulegt að laga heilbrigðisþjónustuna að þörfum fólks í heimabyggð. Embætti landlæknis sinnir mikilvægu lýðheilsustarfi og styður við heilsueflingu í sveitarfélögum og skólum um allt land. Umhverfi landsins er fólki einnig hagfellt með góðum aðgangi að hreinu lofti og vatni.

Motun-heilbrigdisstefnuTilvitnunin hér að ofan er tekin úr drögum að heilbrigðisstefnu til 2030. Myndin er tekin á heilbrigðisþingi sem fram fór 2. nóvember sl. en þar var fjallað um mótun stefnunnar.