19. okt. 2015

Framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks

Karl Björnsson Við gerð samkomulags um yfirfærslu málefna fatlaðs fólks í upphafi árs 2011, var m.a. fjallað um framtíðarverkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á sviði atvinnumála fatlaðs fólks. Vinna skyldi að því máli á reynslutímabili yfirfærslunnar með það fyrir augum að tryggja öruggan grundvöll undir samstarf milli Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga. Nokkuð skiptar skoðanir reyndust vera um útfærslur og leiðir.

Verkefnisstjórn sem unnið hefur að endurmati á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna lagði drög að málamiðlun um tiltekna útfærslu. Viljayfirlýsing sem nú hefur verið undirrituð byggist á þessari útfærslu, en yfirlýsingin er hluti af væntanlegu heildarsamkomulagi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins fyrir hönd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um að ljúka endurmatinu.

Í viljayfirlýsingunni er lögð áhersla á að litið verði á atvinnu- og hæfingartengda þjónustuþætti sem eina heild og að framkvæmd þeirra verði skilgreind sem vinnumarkaðsúrræði. Aðgengi að öllum atvinnutengdum aðgerðum verði þannig á sama stað, óháð því af hvaða ástæðum einstaklingar þurfa á þeim að halda. Þar sem vinnumarkaðsaðgerðir eru á verksviði Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum, mun það falla í hlut Vinnumálastofnunar að taka við öllum umsóknum, meta færni einstaklinga og beina þeim á þær brautir sem best henta hverjum og einum eftir því sem kostur er.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni mun Vinnumálastofnun sjá um almennar vinnumarkaðsaðgerðir, verndaða vinnustaði, starfsþjálfun, atvinnu með stuðningi og aðra atvinnutengda endurhæfingu. Hlutverk sveitarfélaga verður að annast framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem tengjast iðju og hæfingu og starfrækslu „blandaðra“ vinnustaða, iðju, hæfingar og verndaðrar vinnu. Stefnt er að gerð samstarfssamninga milli Vinnumálastofnunar og þjónustusvæða í málefnum fatlaðs fólks þar sem rammi verður settur um teymisvinnu og samráð við notendur.