02. okt. 2017

Dregur stöðugt úr áfengis- og tóbaksnotkun ungs fólks

Rannsóknir sýna að á árunum 2000 til 2016 drógust daglegar reykingar ungs fólks á aldrinum 16-20 ára saman úr 21% í 5%.  Svipaða sögu er að segja um áfengisneyslu, en á þessu tímabili fækkaði þeim sem höfðu orðið ölvarðir sl. 30 daga úr 64% í 38%. Forvarnardagurinn 2017 verður 4. október.

Þetta er í 12. sinn sem Forvarnardagurinn er haldinn í grunnskólum landsins og í 7. sinn sem framhaldsskólar taka þátt. Forseti Íslands, borgarstjórinn í Reykjavík og fulltrúar þeirra frístundahreyfinga sem að deginum koma heimsækja skóla víða um land og ræða við nemendur um vandamál og hættur samfara áfengis- og tóbaksneyslu.

Forseti Íslands og ungur námsmaðurGrunnskólum og framhaldsskólum býðst þátttaka þeim að kostnaðarlausu í verkefnum forvarnardagsins og er óhætt að segja að langflestir skólar sjái sér hag í því.

Á Forvarnardaginn ræða nemendur um hugmyndir sínar og tillögur um æskulýðs- og íþróttastarf, fjölskyldulíf og hvaðeina sem eflt getur að þeirra mati forvarnir. Hugmyndirnar eru síðan teknar saman og birtar á vef dagsins á www.forvarnardagur.is.

Tekið á móti forsetanumRannsóknir sýna að samvera með foreldrum og fjölskyldu annars vegar og þátttaka í skipulögðu frístundastarfi er áberandi á meðal þeirra ungmenna sem best gengur að sniðganga áfengi og önnur fíkniefni.

Að Forvarnardeginum standa forseti Íslands, Reykjavíkurborg ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, Skátunum, Ungmennafélagi Íslands, Félagi framhaldsskóla og Rannsóknum og greiningu. Bakhjarl verkefnisins er Actavis.