Eyða verður óvissu vegna NPA

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga átelur þann drátt sem orðið hefur á kostnaðarmati vegna innleiðingar sveitarfélaga á NPA-samningum. Þá er óboðlegt að NPA hafi verið lögfest sem þjónustuform, án þess að reglugerð lægi efnislega fyrir um framkvæmd þess og er því áríðandi, að mati stjórnarinnar, að málið verði rætt til hlítar á fyrirhugum fundi sambandsins með félags- og jafnréttisráðherra nú fyrir lok októbermánaðar.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga átelur þann drátt sem orðið hefur á kostnaðarmati vegna innleiðingar sveitarfélaga á NPA-samningum. Þá er óboðlegt að NPA hafi verið lögfest sem þjónustuform, án þess að reglugerð liggi efnislega fyrir um framkvæmd þess og er því áríðandi, að mati stjórnarinnar, að málið verði rætt til hlítar á fyrirhuguðum fundi sambandsins með félags- og jafnréttisráðherra nú fyrir lok októbermánaðar.

Stjórn sambandsins fjallaði á 864. fundi sínum, þann 10. október sl., um viðbrögð velferðarráðuneytis við þeirri ósk að sveitarfélög fengju frest vegna gildistöku NPA frá 1. október sl. og fram að áramótum.

Er í bókun stjórnar bent á, að margháttuð óvissa fylgi þeirri stöðu sem komin er upp og vinnur gegn því yfirlýsta markmiði löggjafans að réttarstaða notenda og ábyrgðaraðila þjónustu sé skýr við gerð og endurnýjun NPA-samninga. Áríðandi sé að málið verði rætt til niðurstöðu á fundi sambandsins með félags- og jafnréttismálaráðherra sem áformað er að halda fyrir lok októbermánaðar.

Samhliða innleiðingu á NPA sem lögákveðnu þjónustuformi fer þeim valkostum fjölgandi sem fötluðu fólki stendur til boða og telur stjórn sambandsins að innleiðing þess muni gagnast bæði notendum og þeim sveitarfélögum sem bera ábyrgð á skipulagi þjónustu við fatlað fólk.

Stjórnin leggur hins vegar þunga áherslu á að vel verði staðið að innleiðingunni og að sveitarfélög fái nægan tíma til þess að undirbúa gerð nýrra NPA-samninga við notendur, og endurnýjun þeirra samninga sem verið hafa í gildi.

Forsenda þess, að sá undirbúningur geti hafist, er að fyrir liggi kostnaðarmetin reglugerð sem lýsir framkvæmdinni. Ítrekar stjórnin að það er á grundvelli þessarar reglugerðar sem sveitarfélögum er ætlað að setja eigin reglur um staðbundna aðlögun þjónustunnar.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga átelur þann drátt sem orðið hefur á að hafist væri handa við kostnaðarmat. Óboðlegt er að sú staða hafi komið upp að NPA væri lögfest án þess að efni reglugerðarinnar lægi fyrir. Margháttuð óvissa fylgir þessari stöðu og vinnur gegn því yfirlýsta markmiði löggjafans að réttarstaða notenda og ábyrgðaraðila þjónustu sé skýr við gerð og endurnýjun samninga um NPA. Áríðandi er að málið verði rætt til niðurstöðu á fundi sambandsins með félags- og jafnréttismálaráðherra sem áformað er að halda fyrir lok októbermánaðar.