Evrópuvika sveitarfélaga og svæða 2022, bæði í Brussel og á netinu

Yfirskrift Evrópuvikunnar í ár er Nýjar áskoranir fyrir samheldni Evrópu, þar sem áhersla verður lögð á málefni sem varða græna og stafræna framþróun, valdeflingu ungs fólks og samheldni álfunnar.

Stærsti viðburður sveitarstjórnarstigsins í Evrópu fer fram í Brussel og á netinu 10.-13. október 2022, en í 19 ár hafa evrópskir sveitarstjórnarmenn þyrpst til Brussel í október til að ræða uppbyggingu og byggðaþróun í Evrópuvikunni - The European Week of Regions and Cities.

Í ár verður Evrópuvikan haldin bæði í Brussel og á netinu. Hér er því um kjörið tækifæri fyrir íslenska sveitarstjórnarmenn að taka þátt í Evrópuvikunni og kynna sér það sem er á döfinni í tengslum við græna og stafræna framþróun innan Evrópusambandsins, valdeflingu ungs fólks í álfunni og samheldni Evrópu.

Það eru Svæðanefnd Evrópusambandsins (Committee of the Regions) og Byggðadeild Evrópusambandsins (DG Regio) sem standa fyrir viðburðinum.

Skráning og nánari upplýsingar. (https://eu.app.swapcard.com/event/euregionsweek-2022)

Nánari upplýsingar veitir Óttar F. Gíslason, forstöðumaður Brussel-skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga (ottarfreyr@samband.is).