Evrópusambandið setur stefnuna á kolefnishlutlausa Evrópu árið 2050

Í loftslagsstefnu Evrópusambandsins er kveðið á um að Evrópa verði kolefnishlutlaus árið 2050. Til þess að ná því markmiði kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að fyrsta skrefið í þá átt sé að draga úr losun gróðurhúsa lofttegunda í álfunni um 55% árið 2030.

Við það tækifæri ítrekaði Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að Evrópa muni standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulagi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og að áfram sé stefnt að því að Evrópa verði fyrsta kolefnishlutlausa heimsálfan.

Þar sem Ísland er aðili að loftslagsmarkmiðum Evrópusambandsins má fastlega búast við að markmið sambandsins eigi einnig við Ísland. Í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum er einmitt kveðið á um að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040, sem er tíu árum fyrr en áætlanir Evrópusambandsins gera ráð fyrir.

Hvaða áhrif hafa þessi markmið á íslensk sveitarfélög?

Á heimsþingi bæjar- og borgarstjóra í október á síðasta ári sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, að það væri í borgum og bæjum heimsins þar sem baráttan gegn loftslagsbreytingum myndi annað hvort tapast eða vinnast. Þar vísaði hann til þess að 70% losunar gróðurhúsalofttegunda komi frá borgum og að 90% fyrirbyggjandi aðgerða séu bundnar sveitarstjórnarstiginu.

Því er ljóst að verkefni borgar-, bæjar og sveitarstjórna þegar kemur að loftslagstengdum aðgerðum verður ærið næstu árin. Aðgerðaleysi er talið kostnaðarsamara en aðgerðir, en aðgerðir kosta líka. Því er mikilvægt að sveitarstjórnarstiginu sé tryggt það fjármagn sem þarft til þess að markmið Íslands um kolefnishlutleysi nái fram að ganga.