Evrópskir sveitarstjórnarmenn ræða sameiginlegar áskoranir og viðbrögð vegna Covid

Sambandið á aðild að CEMR sem eru hagsmunasamtök landssambanda sveitarfélaga og svæða í Evrópu. Meginhlutverk samtakanna er hagsmunagæsla gagnvart ESB og þekkingarmiðlun á milli evrópskra sveitarfélaga. Covid hefur umbylt starfsemi samtakanna. Allir fundir fara nú fram á netinu og Covid málefni eru í forgrunni.

Pólitísk stefnumótunarnefnd CEMR fundaði 29. september s.l. og í framhaldi af þeim fundi voru haldnar átta málstofur á þremur dögum til að ræða leiðir út úr Covid-krísunni og langtímastefnumótun CEMR. Þátttakendur voru yfir 200 frá 32 löndum. Formaður sambandsins Aldís Hafsteinsdóttir og varaformaður Heiða Björg Hilmisdóttir tóku þátt f.h. sambandsins, ásamt sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs og forstöðumanni Brussel-skrifstofu sambandsins.

Mál málanna gagnvart ESB er hvernig hægt sé að tryggja aðkomu sveitarfélaga að efnahagslegum endurreisnarpakka upp á 750 milljarða evra. Þar skiptir miklu máli að tryggja að ríkisstjórnir aðildarríkja hafi sveitarfélög með í ráðum við gerð landsáætlana sem verða þáttur í ESB endurreisnarpakkanum. Þessi pakki er hluti af fjárlögum ESB og utan EES samningsins.

Traust á sveitarstjórnum hefur aukist

Umræður á fundunum endurspegluðu þær þjónustuáskoranir sem evrópsk sveitarfélög glíma við vegna Covid og tekjufalls. Sem dæmi þá er talið að skatttekjur þýskra sveitarfélaga muni lækka um 15,6 milljarða evra 2020 og sveitarfélög í Tékklandi reikna með 20% samdrætti útsvars miðað við síðasta ár. Fram kom að staðan er mjög misjöfn eftir svæðum og að móta verði endurreisnaraðgerðir með tilliti til þess. Alls staðar í Evrópu eru ferðaþjónustusveitarfélög að verða fyrir mesta skellinum. Ferðaþjónustan er einmitt burðarrás í mörgum ríkjum S-A-Evrópu. Kynnt var könnun sem sýnir að sveitarfélög á því svæði eru að verða fyrir 30% tekjufalli. Ríkisstjórnir í helmingi þessara landanna hafa ekki sett fram neinar áætlanir um mótvægisaðgerðir og sveitarfélög hafa aðeins haft aðkomu að þeim í 1/3 hluta þeirra landa, sem hafa sett fram slíkar áætlanir. Fram kom að leggja verði áherslu á að styrkja sjálfsforræði sveitarfélaga í efnahagslegu tilliti og að þau njóti sjálfstæðra tekjustofna. Þar standa íslensk sveitarfélög vel í evrópskum samanburði. Lögð var áhersla á að stuðningsaðgerðir verði að vera til lengri tíma þar sem efnahagslegu áhrif eru ekki komin að fullu fram. Þannig kom fram að í Austurríki hefur dregið út gjaldþrotum fyrirtækja vegna fyrstu stuðningsaðgerða ríkisins.

Jákvæðar afleiðingar voru líka til umræður svo sem að traust á sveitarstjórnum hefur aukist samkvæmt könnunum í Englandi og Þýskalandi og samkennd og hjálpsemi einstaklinga og félagasamtaka blómstrað gagnvart þeim sem hafa átt erfitt uppdráttar í kófinu. Það var auðheyrt að hið daglega líf hefur raskast mun meira í mörgum löndum Evrópu heldur en hér á landi, s.s. í Bretlandi og Spáni.

Endurhugsa þarf opinbera þjónustu

Lýðræðislegar áskoranir voru einnig til umræðu þar sem Covid hefur leitt til meiri miðstýringar í einstökum löndum. Á CEMR fundum hefur margsinnis kom fram að margir breskir sveitarstjórnarmenn sjá eftir ESB stuðningi sem sveitarfélög og svæði hafa getað sótt beint til Brussel án milligöngu breska ríkisins. Þetta kom líka fram gagnvart stöðunni núna um leið og kvartað var yfir miðstýringar tilhneygingu Westminster stjórnarinnar í stað þess að veita sveitarstjórnum umboð til að grípa til aðgerða í samræmi við staðbundnar aðstæður og fjárhagsstuðning til þess.

Fjallað var um mannréttindamál með tilliti til stöðu hópa sem standa höllum fæti, s.s. innflytjenda og flóttamanna, og varhugaverðar þróunar í nokkrum A-Evrópulöndum, sérstaklega í Póllandi þar sem sveitarfélög hafa verið að skilgreina sig sem LGBTI-laus sveitarfélög. CEMR samþykkti ályktun fyrir nokkru, sem m.a. formaður sambandsins og borgarstjóri undirrituðu, þar sem þessi þróun var fordæmd. Á pólitíska stjórnunarfundinum var til umfjöllunar önnur ályktun vegna atburðanna á grísku eyjunni Lesbos. Í henni kallar CEMR eftir samstöðu og að þeir sem misstu húsnæði eftir eldanna, sem eyðilögðu Moria flóttamannamiðstöðina, fái að njóta mannréttinda og mannlegrar reisnar.

Eftir því sem Covid dregst á langinn er ljóst að það er enginn leið aftur til hins gamla heldur þarf að skapa nýtt „normal“ eins og það er kallað. Ein málstofan endurspeglaði þetta þar sem hún fjallaði um hvernig hægt sé að endurhugsa opinbera þjónustu. Þetta verður örugglega stóra málið í endurreisninni eftir Covid. Mikilvægt er í því sambandi að viðhalda því jákvæða sem tókst að byggja upp á örstuttum tíma, s.s. að halda áfram að hagnýta og þróa stafræn tækifæri í opinberri stjórnsýslu og þjónustu, þverfaglegt samstarf og samstarf við íbúa og félagasamtök.

Frá fundi pólitískrar stefnumótunarnefndar CEMR sem haldinn var í fjarfundi um mánaðamótin september/október 2020.