Þingmenn Evrópuþingsins samþykktu þann 16. júlí síðastliðinn að varnarmálaráðherra Þýskalands, Ursula von der Leyen, yrði næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB).
Þingmenn Evrópuþingsins samþykktu þann 16. júlí síðastliðinn að varnarmálaráðherra Þýskalands, Ursula von der Leyen, yrði næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB).
Í framhaldi af því kynnti Ursula von der Leyen stefnumál sín og lagði þar með grunninn fyrir þau mál sem sett verða á oddinn hjá ESB á næstu árum.
Stefnt er að því að Evrópa verði fyrsta kolefnis-hlutlausa heimsálfan. Í tengslum við það mun svo kallaður “grænn samningur fyrir Evrópu” verða eitt af hennar fyrstu verkum sem forseti. Hluti af þessum samningi verður að útvíkka enn frekar losunarkerfi ESB. Jafnframt því verða 1.000 milljarðar Evra eyrnamerktir fjármögnun “Sjálfbærrar Evrópu” á næstu árum.
Þá er stefnt að því að Evrópa sinni betur þörfum íbúa álfunnar og að staðinn verði vörður um efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks. Þá verður stuðningur við lítil og meðalstór fyrirtæki aukinn með það fyrir augum að skapa störf í álfunni. Samfara því á að tryggja að Evrópa verði í stakk búin til þess að nýta sér þá stafrænu byltingu sem nú á sér stað.
Staða Evrópu á heimsvísu og staða lýðræðis í Evrópu eru einnig ofarlega í stefnumörun Ursulu von der Leyen.
Þá hefur verið staðfest að varaforsetar verði Daninn Margrethe Vestager og Hollendingurinn Frans Timmermanns.
Enn þá á eftir að ákveða hverjir muni stýra ráðuneytum og einstaka málaflokkum innan framkvæmdastjórnarinnar, en vænta má að það skýrist á næstu vikum. Ursula von der Leyen stefnir að jöfnu kynjahlutfalli í æðstu embættum framkvæmdastjórnarinnar og hefur jafnframt sagt að þau ríki sem tilnefni konur muni fá eftirsóknarverðari ráðuneyti.