ESB bindur vonir við skyndipróf og bóluefni

Covid-19 farsóttin hefur verið á uppleið hvarvetna í Evrópu síðustu vikur og á blaðamannafundi í kjölfar leiðtogafundar ESB þann 29. október síðastliðinn sagði Charles Michel, forseti ráðherraráðs ESB, að umræður fundarins hefðu einkum snúist um samræmdar aðgerðir tengdar sýnatöku og rakningu annars vegar og dreifingu bóluefnis hins vegar.

Þá kom fram kom í máli Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, að aðildarríkin glímdu ekki einungis við farsóttina heldur einnig minnkandi langlundargeð almennings. En nú væri ekki rétti tíminn til að slaka á, þar sem búast mætti við miklum vexti í farsóttinni á næstu vikum.

Ljóst er að mikilvægustu ákvarðanirnar á þessu sviði eru teknar af stjórnvöldum í hverju ríki en samkvæmt Ursula von der Leyen getur framkvæmdastjórn ESB stuðlað að samhæfingu og gagnkvæmri aðstoð. Charles Michel tók undir þetta og sagði hann ríkan vilja vera meðal leiðtoga ESB að vinna samhent og einhuga að því að vinna bug á aðsteðjandi vanda. Í því skyni væru þeir reiðubúnir að fjalla áfram um tillögu framkvæmdastjórnarinnar að stefnumörkun um sýnatöku, gagnkvæma viðurkenningu sýnatökuvottorða, samvirkni rakningarappa, samræmt form fyrir skráningu farþega og samræmda lengd sóttkvíar.

Varðandi bóluefni sagði Charles Michel leiðtogana einnig vera einhuga um að vinna áfram að viðmiðum um jafnræði við dreifingu bóluefnis, skiptast á upplýsingum um forgangsröðun í hverju ríki um sig og undirbúa viðeigandi aðstæður og aðbúnað fyrir flutning og miðlun efnisins.

Þá gerði Ursula von der Leyen nánar grein fyrir næstu skrefum á eftirfarandi hátt:

  • Að öflun og miðlun þeirra upplýsinga sem aðildarríkin láti Evrópsku sóttvarnastofnuninni í té (ECDC) verði samræmd;
  • Að komið verði upp vettvangi þar sem sérfræðingar stjórnvalda í aðildarríkjunum og Evrópusambandsins geti skipst á upplýsingum;
  • Að hraðað verði eins og kostur er að votta og samræma hraðvirku sýnatökuna, en með því móti verði gagnkvæm viðurkenning vottorða möguleg og greitt verður fyrir nauðsynlegum ferðum milli landa;
  • Að greiða fyrir að mismunandi rakningaröpp verði samvirk og gagnist til rakningar yfir landamæri. Að svo stöddu séu eingöngu 3 öpp af 22 samstillt en stefnt verði að því hin 19 verði einnig stillt saman í næsta mánuði;
  • Að farþegaskráning verði samræmd fyrir árslok, en að svo stöddu séu 11 mismunandi form í gangi.

Varðandi bóluefni sagði Ursula von der Leyen:

  • Að löggildingu þeirra verði hraðað eins og kostur er án þess að slegið verði af kröfum til nákvæmni og öryggis. Áður hafði komið fram hjá henni að í besta falli væri hægt að byrja bólusetningu í stórum stíl í apríl 2021.
  • Að dreifing þeirra lúti sjónarmiðum um jafnræði þannig að allir fái bóluefni á sama tíma og með sömu skilyrðum.
  • Framkvæmdastjórnin hafi þegar gert forkaupssamninga við þrjú lyfjafyrirtæki og samningar við þrjú önnur séu í burðarliðnum. Einnig sé von á einu til viðbótar. Bóluefnin munu koma í áföngum og ekki öll á sama tíma.

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar um samræmda nálgun á ferðatakmarkanir

Þessu til viðbóta samþykkti ráðherraráð ESB þann 13. október síðastliðinn tilmæli um samræmda nálgun á ferðatakmörkunum. Tilmælin, sem ekki eru bindandi, heldur byggja á því að forræði á sóttvarnaaðgerðum er fyrst og fremst hjá aðildarríkjunum. Hins vegar beri að leitast við að samræma nálgun til að hefta ferðafrelsi sem minnst. Í tilmælunum er kveðið á um tiltekin lykilviðmið þegar ákvörðun er tekin um að hefta frjálsa för vegna COVID-19 faraldursins:

  • 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa;
  • Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda tekinna sýna undanfarna viku;
  • Svonefnt „sýnatökuhlutfall“, þ.e. fjöldi sýna sem tekinn er á hverja 100.000 íbúa undanfarna viku.

Á grundvelli upplýsinga frá aðildarríkjunum birtir Sóttvarnastofnun Evrópu vikulega sérstakt kort yfir aðildarríkin, sundurgreint eftir svæðum, þar sem fram kemur hversu mikil smithætta er á hverju svæði fyrir sig. Kortið byggi einnig á upplýsingum frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi.

Þær meginreglur gilda síðan samkvæmt tilmælunum að ekki sé heimilt að beita takmörkunum (t.d. sóttkví eða sýnatöku) á för einstaklinga frá „grænum“ svæðum og sóttkví skuli ekki beitt gagnvart einstaklingum sem ferðast í nauðsynlegum tilgangi. Þá er gert ráð fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á niðurstöðum sýnatöku vegna Covid-19 sem framkvæmd er af vottuðum aðilum og að þróað verði evrópskt forskráningarform.

Þá er gert ráð fyrir að aðildarríkin taki tillit til sérstöðu tiltekinna svæða, m.a. vegna landfræðilegrar einangrunar.

Viðbrögð EES EFTA ríkjanna

EFTA ríkin þrjú eru nú að skoða hvort ástæða sé til að tilmælin verði hluti af EES-samningnum. Einnig er ráðherraráð ESB að athuga hvort eðlilegt sé að líta á tilmælin sem þróun á Schengen-regluverkinu.

Við undirbúning tilmælanna var þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda komið á framfæri að aukið samstarf í þessu efni væri æskilegt, til dæmis að því er varðar miðlægt áhættumat, gagnkvæma viðurkenningu vottorða og forskráningu farþega.

Nálgunin á Íslandi nú væri hins vegar að sumu leyti önnur en tilmælin ganga út frá. Þannig lytu nú allir komufarþegar til landsins sömu reglum óháð því hvaðan þeir koma og óháð tilgangi farar. Endanlegt forræði yfir sóttvörnum væri hjá hverju ríki og hafa þyrfti í huga mismunandi aðstæður, t.d. landfræðilega legu.