04. des. 2017

Enginn stjórnarsáttmáli með jafn mikla áherslu á málefni sveitarfélaga

Enginn stjórnarsáttmáli hefur á undanförnum áratugum lagt jafn ríka áherslu á sveitarstjórnarmál og sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar. RÚV ræddi nýlega við Karl Björnsson, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, um nýsamþykktan stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Karl BjörnssonUm byggðamál segir m.a. í sáttmálanum að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. Ríkisstjórnin ætlar einnig að auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti, auk þess að skilgreina betur hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu.

Karl lýsti í viðtali sínu í fréttum RÚV ánægju með þá áherslu sem lögð er á byggðamál í sáttmálunum. Jafn rík áhersla og nú hafi ekki gert vart við sig hjá ríkisstjórnum um áratuga skeið.

Sambandið hafi, sem dæmi, beitt sér fyrir eflingu sóknaráætlana landshluta og það sé því fagnaðarefni að ríkisstjórnin ætli að efla þær áætlanir. Þá er að mati Karls ekki síður ánægjulegt að ríkisstjórnin ætli sér að ræða betur tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og fjármögnun sveitarstjórnarstigsins.

Karl fjallaði um nýja stjórnarsáttmálann í grein sem birt er hér á vef sambandsins.