Enginn afgangur af rekstri

Hag- og upplýsingasvið hefur nú safnað saman ársreikningum A-hluta 64 af þeim 69 sveitarfélögum sem við lýði voru árið 2021. Í þessum sveitarfélögum búa yfir 99% landsmanna.

Samandregnar niðurstöður

 • Rekstrarafgangur var neikvæður um 8,8 ma.kr. árið 2021 sem er því sem næst sama tala og árið áður. Í hlutfalli við tekjur var hallinn 2,2% af tekjum 2021, en 2,4% árið á undan.
 • Tekjur A-hlutans hækkuðu um 9,6% og gjöld aðeins minna eða um 8,8%.
 • Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 10%, en um 9,8% að viðbættum breytingum lífeyrisskuldbindinga.
 • Skuldir og skuldbindingar A-hluta jukust um 10,2% og hækkuðu sem hlutfall af tekjum úr 111% í 112%.
 • Rekstur A-hluta skilaði veltufé sem nam 3,8% af tekjum árið 2021, en árið áður var hlutfallið aðeins hærra eða 4,9%.
 • Fjárfestingar A-hluta voru tæplega 43 ma. kr. árið 2021 og voru þær svipaðar árið á undan. Til fjárfestinga var varið 10,6% af tekjum árið 2021 og 11,5% 2020.

Rekstrarreikningur A- hluta sveitarfélaga 2021 og 2020

Í töflu 1 er yfirlit um rekstur A-hluta sveitarfélaga  árin 2021 og 2020.

Tafla 1. Rekstrarreikningur A-hluta 2021 og 2020

Heildartekjur sveitarfélaganna námu 403,9 ma.kr. á árinu 2021, samanborið við 368,6 ma.kr. árið 2020 og nemur hækkun milli ára 9,6%.

 • Skatttekjur (án framlaga jöfnunarsjóðs) námu 291,6 ma.kr. og hækkuðu um 20,9 ma.kr. milli ára eða um 7,7%.
 • Útsvarstekjur hækkuðu um rúmlega 9%, en meðalútsvarsprósenta stóð nánast í stað milli ára, fór úr 14,44% í 14,45%.
 • Tekjur af fasteignasköttum jukust um 2,5%. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkaði um 4,6% og meðalálagning lækkaði úr 0,249% í 0,248%. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkaði um 1,2% og meðalálagning lækkaðu úr 1,594% í 1,574%.
 • Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hækkuðu um 4,7%.
 • Þjónustu- og aðrar tekjur hækkuðu um nær 24%. Undir þann lið falla tekjur sem jafnan sveiflast verulega frá ári til árs s.s. sala byggingaréttar og lóða. Þessar tekjur jukust verulega frá 2020 til 2021.

Rekstrarkostnaður sveitarfélaganna (án fjármagnsliða og óreglulegra liða) nam samtals 405,4 ma.kr. á árinu 2021 og hækkaði um 8,8% frá 2020.

 • Launagreiðslur vega þungt í rekstri sveitarfélaga. Laun og launatengd gjöld að viðbættum lífeyrisskuldbindingum námu rösklega 60% af heildartekjum A-hluta sveitarfélaga árið 2021. Hlutfallið var nánast hið sama árið áður, en til samanburðar má nefna að meðal hlutfall undanfarin 10 ár er um 56%, sjá mynd 1.
 • Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 7,1% og afskriftir um 8,7%.
 • Að teknu tilliti til fjármagnsliða og óreglulega liða er heildarniðurstaða af rekstri sveitarfélaganna á árinu 2021 neikvæð um 8,8 ma.kr. sem er 2,2% af tekjum. Er þetta annað árið í röð sem halli er á rekstri sveitarfélaga. Þróun afkomu undanfarinna tíu ára er sýnd í mynd 2.

Efnahagsreikningur A-hluta sveitarfélaga 2021 og 2020 Tafla 2 sýnir yfirlit um eignir og skuldir sveitarfélaga í lok áranna 2021 og 2020.

Tafla 2. Efnahagsreikningur A-hluta 2021 og 2020
 • Heildarskuldir, bæði til langs og skamms tíma, hækkuðu um 11,7%. Námu þær 84% af tekjum 2021 en 83% 2020. Skuldbindingar hækkuðu um 6,1%, en lífeyrisskuldbindingar eru þar langfyrirferðarmestar.
 • Heildarskuldir og skuldbindingar námu 452,9 ma.kr. í árslok 2021 samanborið við 410,8 ma.kr. í árslok 2020 og nemur hækkunin 10,2%. Samanlagt námu skuldir og skuldbindingar 112% af tekjum 2021 og 111% árið á undan.

Sjóðstreymi A-hluta sveitarfélaga 2021 og 2020

Í töflu 3 er sýnt yfirlit yfir sjóðstreymi sveitarfélaga fyrir árin 2021 og 2020.

Tafla 3. Sjóðstreymi A-hluta 2021 og 2020

Sjóðstreymið sýnir hvernig þeim fjármunum, sem reksturinn skilar, er ráðstafað.

 • Veltufé frá rekstri ársins 2021 nam um 15,5 ma.kr. sem er 14% lækkun frá fyrra ári. Sem hlutfall af tekjum lækkar veltufé úr 4,9% í 3,8%. Hefur veltufé frá rekstri ekki áður mælst jafn lágt allt frá 2002.
 • Fjárfestingar sveitarfélaga í varanlegum rekstrarfjármunum voru svipaðar milli ára eða tæplega 43 ma.kr. Fjárfestingar sem hlutfall af tekjum reyndust 10,6% 2021 en 11,5% 2020.
 • Sveitarfélögin tóku ný langtímalán að fjárhæð um 47,4 ma.kr. á árinu, en 39,3 ma.kr. árið áður. Afborganir langtímalána námu 16,6 ma.kr. 2021 samanborið við 16,1 ma.kr. árið 2020. Nettólántaka, þ.e. ný langtímalán að frádregnum afborgunum langtímalána, var jákvæð um 30,8 ma.kr. 2021 en jákvæð um 23,3 ma.kr. árið áður.
Mynd 1. Laun, tengd gjöld og lífeyris-skuldbinding í hlutfalli við tekjur
Mynd 2. Rekstrarafgangur og veltufé frá rekstri í hlutfalli við tekjur.