Endurskoðun viðræðuáætlana og eingreiðslur

Samninganefnd sambandsins hefur endurnýjað viðræðuáætlanir við flesta viðsemjendur og samið um eingreiðslur.

Undanfarna daga hefur samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga endurnýjað viðræðuáætlanir við viðsemjendur sambandsins þar sem stefnt er að kjarasamningagerð aðila verði lokið fyrir 15. september næstkomandi.

Ástæða endurskoðunarinnar er sú að kjaraviðræður eru umfangsmeiri að þessu sinni en oft áður og þurfa því lengri tíma. Á vettvangi heildarsamtaka opinberra starfsmanna er jafnhliða unnið að samkomulagi um launaþróunartryggingu, breytt fyrirkomulag vinnutíma og fleiri veigamiklum atriðum.

Vegna þess er að framan greinir hafa aðilar sammælst um að þann 1. ágúst 2019 verði hverjum starfsmanni greidd innágreiðsla á væntanlegan kjarasamning er verði metinn sem hluti af kostnaðaráhrifum hans. 

Sérstakt samkomulag hefur verið gert við þau aðildarfélög BHM sem samið hafa um starfsmat. Viðræðuáætlanir þeirra ná fram til 15. nóvember og vegna þess eru greiddar tvær eingreiðslur. 

Starfsgreinasambandið, Efling og Verkalýðsfélag Akraness

Starfsgreinasambandið, Efling og Verkalýðsfélag Akraness hafa öll vísað kjaradeilum sínum til ríkissáttasemjara þar sem deilt er m.a. um lífeyrismál. Þar sem viðræður eru nú undir verkstjórn ríkissáttasemjara er viðræðuáætlun aðila þar með fallinn úr gildi og því ekki á forræði Sambands íslenskra sveitarfélaga að semja um endurnýjun hennar.