Endanleg framlög úr Jöfnunarsjóði liggja nú fyrir

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaða úthlutun vegna tekjutaps fasteignaskatts, tekjujöfnunarframlags og útgjaldajöfnunarframlags fyrir síðasta ár. Heildarúthlutun jöfnunarframlaga hækkuðu um 1.950 m.kr. í ár samfara auknum skatttekjum ríkissjóðs.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaða úthlutun vegna tekjutaps fasteignaskatts, tekjujöfnunarframlags og útgjaldajöfnunarframlags fyrir síðasta ár.

Heildarúthlutun til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts nam að þessu sinni 4.508,7 m.kr. Nú þegar hafa 4.292,0 m.kr. komið til greiðslu og voru eftirstöðvar framlagsins, 216,8 m.kr. gerðar upp þann 27. desember sl.

Heildarúthlutun vegna tekjujöfnunarframlaga nam síðan 1.250,0 m.kr. Um ¾ hlutar framlaganna, eða 937,5 m.kr. voru greiddar út í október sl. Eftirstöðvarnar, 312,5 m.kr. komu einnig til greiðslu Þann 27. desember sl.

Vegna verulegrar hækkunar á tekjum Jöfnunarsjóðs, af 2,12% lögbundinni hlutdeild sjóðsins í innheimtum skatttekjum ríkissjóðs, hefur heildarúthlutun útgjaldajöfnunarframlaga í ár verið hækkuð um 1.950 m.kr. eða um 27% frá áætlun ársins.

Framlögin nema þannig alls 9.806,6 m.kr. Þar af eru framlög vegna skólaaksturs úr dreifbýli á árinu samtals að fjárhæð 750,0 m.kr. Til greiðslu á árinu hafa komið samtals 6.693,0 m.kr. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 2.507,0 m.kr. komu til greiðslu fimmtudaginn 28. desember.

Meðtalin í þeirri greiðslu eru viðbótarframlög vegna íþyngjandi kostnaðar við skólaakstur úr dreifbýli á árinu 2017 umfram tekjur að fjárhæð 175,0 m.kr. Jafnframt er meðtalið greiðsla sérstaks framlags vegna tekna af skatti á fjármálafyrirtæki að fjárhæð 606,6 m.kr og kom til greiðslu 7. júlí síðastliðinn.