09. maí 2016

Einn kemur þá annar fer

IMG_9962Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var föstudaginn 29. apríl sl.,  var samþykkt að ráða Sigurð Ármann Snævarr hagfræðing í starf sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs sambandsins.

Gunnlaugur A. Júlíusson, sem gegnt hefur starfi deildarstjóra hagdeildar og síðar sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs sambandsins frá árinu 1999, sagði starfi sínu lausu í byrjun apríl og samþykkti stjórnin starfslok hans frá og með 1. maí 2016. Gunnlaugur hefur verið ráðinn og þegar hafið störf sem sveitarstjóri Borgarbyggðar.

Sigurður Ármann Snævarr stundaði hagfræðinám í Lundi í Svíþjóð og í Lundúnum á Englandi og starfaði síðan hjá Þjóðhagsstofnun frá 1982 til 2001. Árið 2001 var hann ráðinn borgarhagfræðingur hjá Reykjavíkurborg og gegndi því starfi til ársins 2010. Þá var hann ráðinn efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og gegndi því starfi í tvö ár. Á árunum 2012–2015 sinnti Sigurður ýmsum rannsóknum og skýrsluskrifum fyrir og í samstarfi við ýmsa opinbera aðila. Frá haustinu 2015 hefur hann starfað sem sérfræðingur hjá Samkeppniseftirlitnu.

Sigurður Ármann Snævarr mun hefja störf á skrifstofu sambandsins innan tíðar. Reynsla hans og þekking á fjármálum hins opinbera – sveitarfélaganna og ríkisins – mun nýtast vel á komandi árum við hagsmunagæslu sambandsins fyrir hönd sveitarfélaganna og í tengslum við ný lög um opinber fjármál.

Á stjórnarfundinum voru Gunnlaugi A. Júlíussyni þökkuð góð störf í þágu sambandsins og sveitarfélaganna þau rétt tæpu 17 ár sem hann hefur starfað hjá sambandinu. Formaður og framkvæmdastjóri sambandsins færðu Gunnlaugi blómvönd á þessum tímamótum um leið og honum var óskað velfarnaðar í nýju starfi á vettvangi sveitarstjórnarstigsins.

GulliKvedur

Karl Björnsson framkvæmdastjóri, Gunnlaugur A. Júlíusson, fv. sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins, og Halldór Halldórsson, formaður sambandsins.