Efnahagsleg áhrif COVID-19 á evrópsk sveitarfélög

COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarlega slæm áhrif á fjárhag margra evrópskra sveitarfélaga.

Á meðan að sveitarfélög hafa þurft að taka á sig auknar fjárhagslegar skuldbindingar vegna faraldursins hafa tekjur þeirra dregist verulega saman. Tap evrópskra sveitarfélaga er talið nema milljörðum Evra.

Þetta er niðurstaða könnunar á vegum Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, sem nær til 21 af aðildarsamtökum CEMR í 17 löndum, þar á meðal Íslands.

Könnunin er unnin af sérfræðingahópi CEMR um fjármál sveitarfélaga og í viðtali við Flo Clucas, bæjarfulltrúa Cheltenham í Bretlandi og formanns sérfræðingahópsins, kom fram að fjárhagsstaða margra evrópskra sveitarfélaga er það bágborin um þessar mundir að þau eru ekki lengur fær um að inna af hendi lögbundna þjónustu.

Aukin verkefni og minni tekjur

Í könnuninni kemur fram að evrópsk sveitarfélög hafa orðið að taka að sér margvísleg verkefni sem hingað til hafa ekki verið á þeirra könnu. Sem dæmi má nefna að í Portúgal hafa sveitarfélög tekið að sér heimsendingu á mat og lyfjum auk fjárhagslegrar aðstoðar fyrir þá sem verst standa fjárhagslega, eða hafa lent í tímabundnum fjárhagskröggum vegna þeirra aðgerða sem grípa þurfti til vegna COVID-19 faraldursins. Þessu til viðbótar hafa fjölmörg portúgölsk sveitarfélög þurft að standa straum af húsnæðiskostnaði vegna heilbrigðisstarfsfólks sem kalla hefur þurft til vegna aukins álags í kjölfar COVID-19 faraldursins.

Tekjutap evrópskra sveitarfélaga má einkum rekja til lækkunar útsvars vegna tekjutaps bæði fyrirtækja og einstaklinga. Í Þýskalandi er til að mynda áætlað að tekjutap sveitarfélaga vegna lækkunar útsvars verði tæplega 16 milljarðar Evra bara á þessu ári og í Tékklandi er reiknað með að útsvar sveitarfélaga lækki um 20% á þessu ári. Enn sem komið er ríkir óvissa um hve mikið tekjutap evrópskra sveitarfélaga á eftir að verða og á það einnig við um Ísland. Þó er ljóst að tekjutapið á eftir að verða mismikið og að þau svæði sem byggja afkomu sína að stórum hluta á ferðamönnum munu væntanlega verða einna verst úti.

Skortur á aðstoð úr ríkissjóði

Í könnuninni kom fram að stuðningur úr ríkissjóði og úr sjóðum Evrópusambandsins sé grundvöllur þess að evrópsk sveitarfélög komist í gegnum það ástand sem nú ríkir. Því sé mikilvægt að hluti COVID-19 efnahagsaðgerða Evrópusambandsins sé sérstaklega eyrnamerktur sveitarfélögum. Hingað til hefur nokkuð skort á stuðningi við úr ríkissjóði og á það við um mörg evrópsk sveitarfélög. Án aðstoðar er hins vegar hætt við að fjárhagsvandi margra evrópskra sveitarfélaga verði að langvinnu vandamáli. Á það ekki síst við um svæði þar sem langvarandi skortur hefur verið á fjárfestingu bæði frá opinberum aðilum og frá einkageiranum.

Hér er að finna tengil á könnun CEMR um efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins á evrópsk sveitarfélög.