Efnahagsaðgerðir ESB í tengslum við COVID-19 faraldurinn

Aðildarríki ESB hafa á hvert fyrir sig kynnt margvíslegar efnahagsaðgerðir sem er ætlað að stemma stigu við neikvæðum áhrifum COVID-19 faraldursins. Þessu til viðbótar hafa ríkin jafnframt komið sér saman um sameiginlegar aðgerðir þar sem tæki og tól Evrópusambandsins (ESB) verða nýtt til þess að styðja við hagkerfi Evrópu.

Aðildarríki ESB hafa á hvert fyrir sig kynnt margvíslegar efnahagsaðgerðir sem er ætlað að stemma stigu við neikvæðum áhrifum COVID-19 faraldursins. Þessu til viðbótar hafa ríkin jafnframt komið sér saman um sameiginlegar aðgerðir þar sem tæki og tól Evrópusambandsins (ESB) verða nýtt til þess að styðja við hagkerfi Evrópu.

Áhersla á samheldni aðildarríkja ESB

Áhrif COVID-19 veirunnar hafa hingað til verið mjög mismunandi innan aðildarríkja ESB. Á meðan ríki eins og Ítalía og Spánn hafa farið mjög illa út úr faraldrinum hafa önnur aðildarríki ESB siglt lygnari sjó. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur af þessum sökum lagt mikla áherslu á að þó svo að afleiðingar faraldursins hafi hingað til verið afar mismunandi innan aðildarríkja ESB þá sé um samevrópskan vanda að ræða og að nú reyni á samtakamátt ESB ríkjanna.

Þetta á ekki síst við um efnahagslegar afleiðingar COVID-19 faraldursins. Að öllum líkindum verða þær mjög alvarlegar í flestum aðildarríkjum ESB, burtséð frá því hver áhrif veirunnar voru á líf og heilsu borgaranna. Að mati Ursulu von der Leyen undirstrikar það enn frekar mikilvægi þess að aðildarríki ESB standi þétt saman og grípi til samræmdra aðgerða.

Ríkisaðstoð á kostnað almennra samkeppnissjónarmiða

Notkun ríkisfjármuna til þess að ívilna einu fyrirtæki eða fleirum umfram önnur getur falið í sér ríkisaðstoð þegar hún er til þess fallin að raska samkeppni. Til þess að komast hjá því ber að haga undirbúningi og útfærslu laga og verkefna með hliðsjón af ríkisaðstoðarreglum ESB. Sé ætlunin að veita ríkisaðstoð þarf viðkomandi aðstoð að hljóta samþykki eftirlitsstofnana eða falla að sérstökum undanþágum.

Aðstæður í heiminum í dag kalla á óvenjulegar ákvarðanir og meðal þeirra aðgerða sem ESB hefur gripið til er að rýmka verulega ofangreindar reglur um ríkisaðstoð. Aðildarríkjum ESB verður því gert kleift að aðstoða fyrirtæki sem lenda í rekstrarvandræðum vegna COVID-19 faraldursins án þess að það sé skilgreint sem samkeppnishamlandi ríkisaðstoð.

Hvort aðgerðir ESB hafi bein áhrif á EES-EFTA ríkin í gegnum EES samninginn á eftir að koma í ljós. Það má þó leiða líkum að því að aðgerðir ESB í tengslum við ríkisaðstoð varði einnig EES-EFTA ríkin þar sem ríkisaðstoð er hluti af EES samningnum, auk þess sem aðgerðir ESB munu að öllum líkindum hafa áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja á EES svæðinu.

Fjárlög og styrkjakerfi ESB

Fjárlög ESB verða aðlöguð að breyttum aðstæðum. Þannig verður hluti að styrkjakerfi ESB nýtt til þess að setja upp sérstakan fjárfestingasjóð sem nemur 37 milljörðum evra. Sjóðurinn mun fjármagna verkefni sem er ætlað að bregðast við efnahagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins. Þessu til viðbótar hefur reglum og áherslum valinna styrkjaáætlana ESB verið breytt þannig að nú er unnt að veita styrki úr þessum áætlunum til þess að styðja við heilbrigðiskerfi aðildaríkja ESB. Auk þess verða reglur og áherslur styrkjaáætlana ESB gerð sveigjanlegri. Þannig verði t.d. heimilt að fella niður kröfur um mótframlag og hægt að flytja fjármagn á milli stefnumála og landssvæða. Auk þess verði hægt að beina fjármagni með markvissum hætti að þeim samfélagshópum sem hafa orðið verst úti vegna áhrifa COVID-19. Evrópsk sveitarfélög horfa til þess að geta notið góðs af þessum aðgerðum.

Ísland tekur þátt í styrkjakerfi ESB með þátttöku í nokkrum áætlunum ESB. Það er hins vegar ólíklegt að sérstakir sjóðir eins og umræddur fjárfestingasjóðir, sem settur er upp sem beint viðbragð við því ástandi sem nú ríkir falli undir þátttöku Íslands. Breytingar á reglum og áherslum styrkjaáætlana á hins vegar við um Ísland, svo fremi að um sé að ræða áætlun sem við tökum þátt í. Það sama á við um kröfur um mótframlag, og flutning á fjármagni á milli stefnumála og landssvæða. Það er hins vegar er ekki ljóst hvort EES-EFTA ríkin þurfi að samþykkja formlega slíkar breytingar.

Aukið svigrúm gagnvart regluverki ESB

Eftirlitsstofnanir ESB munu einnig taka mið af því að um er að ræða afar óvenjulegt ástand. Því verður aðildarríkjum ESB heimilað að nýta til hins ítrasta allt það svigrúm sem regluverk sambandsins heimilar. Ástæður þessa aukna svigrúms er nauðsyn þess að tryggja fjárhagslegan stöðugleika í álfunni og slá skjaldborg um evrópsk heimili og fyrirtæki.

Aukið svigrúm innan regluverks ESB á einnig við um EES-EFTA ríkin og ætla má að Eftirlitsstofnun EFTA muni því taka tillit til þessara tilmæla frá ESB.

Neyðarlán Seðlabanka Evrópu

Til viðbótar við aðgerðir ESB hefur Seðlabanki Evrópu sett á fót neyðarlánasjóð til þess að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins. Sjóðnum, sem nemur 750 milljörðum evra, er ætlað að sjá til þess að bankar aðildarríkja ESB hafi lausafé til að geta lánað fyrirtækjum og heimilum meðan núverandi ástand varir.

Aðgerðir ESB í tengslum við enduruppbyggingu hagkerfa Evrópu og til að bregðast við samskonar áskorunum í framtíðinni

Í þessu tilliti hefur ESB sett á fót sérstakan sjóð, upp á 2,7 milljarða evra, sem er ætlað að styðja við heilbrigðiskerfi aðildarríkja ESB. Með því er vonast til þess að tryggja megi að ríkin verði betur í stakk búin til að takast á við faraldur eins og COVID-19. Það verður að teljast ólíklegt að sjóður sem þessi falli innan EES samningsins, nema ESB og EES-EFTA ríkin kjósi að semja sérstaklega um það.

Þá mun Evrópski fjárfestingabankinn koma á fót tryggingasjóði upp á 25 milljarða evra sem er ætlað að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Evrópu aðgengi að lánsfé. Það er áætlað að tryggingasjóðurinn geti tryggt evrópskum fyrirtækjum aðgang að lánsfé sem nemur 200 milljörðum evra.

Ákveðið hefur verið að nýta Stöðugleikasjóð ESB (European Stability Mechanism) til þess að tryggja aðildarríkjum ESB, sem hafa tekið upp evrur, lánalínur. Þeim er eingöngu ætlað að fjármagna aðgerðir sem snúa að heilbrigðiskerfi þessara landa, eða aðgerðir sem snúa að meðferð eða lækningu á COVID-19 veirunni. Þessar lánalínur munu standa ríkjunum til boða þar til faraldurinn er genginn yfir.

Loks má geta þess að ESB hefur sett á fót svokallaðan SURE lánapakka upp á 100 milljarða evra. Honum er ætlað að aðstoða þá sem hafa misst vinnuna vegna COVID-19 faraldursins og fyrirtæki sem standa höllum fæti vegna þeirra hafta sem gripið hefur verið til vegna veirunnar. Það ljóst að sérstakir aðgerðapakkar eins og SURE ná ekki til EES samningsins.

Samtök evrópska sveitarfélaga fylgjast með þróun mála hjá ESB

Það má fastlega búast við því að ESB muni á næstu vikum og mánuðum kynna enn frekari aðgerðir í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Evrópusamtök sveitarfélaga CEMR hafa sett á laggirnar sérstakan Covid-hóp til að gæta hagsmuna meðlima sinna gagnvart ESB aðgerðum og til að miðla reynslu og þekkingu á milli meðlima sinna. Forstöðumaður Brusselskrifstofu mun taka þátt í starfi hópsins og miðla upplýsingum til sambandsins og íslenskra sveitarfélaga.