Efling skóla, frístundastarfs og barnaverndar vegna barna á flótta

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur úthlutað 143 m.kr. í styrki til sveitarfélaga til að bregðast við aukningu í móttöku barna á flótta. Styrkirnir snúa annars vegar að eflingu skóla og frístundastarfs og hins vegar að stuðningi við umdæmisráð barnaverndar og önnur úrræði fyrir fjölskyldur á flótta.

Börn á flótta búa við fjölþættar áskoranir til lengri eða skemmri tíma. Þau og fjölskyldur þeirra þurfa oft og tíðum aukinn stuðning þegar þau eru að taka sín fyrstu skref í nýju samfélagi. Í kjölfar mikillar fjölgunar barna á flótta hér á landi ákvað ríkisstjórnin að hefja reynsluverkefni til þess að styðja við sveitarfélög vegna barna á flótta sem eru búsett og með skráð lögheimili hérlendis.

Alls sóttu 11 sveitarfélög um styrk fyrir 804 börn. Hægt var að sækja um styrk vegna allra barna sem fengið höfðu alþjóðlega vernd frá 1. janúar 2021 til 14. nóvember 2022. Samtals var úthlutað 142.650.000 kr. að þessu sinni en sveitarfélög geta aftur sótt um vegna skólaársins 2022–2023 í lok skólaársins.

Í maí lagði mennta- og barnamálaráðuneytið fé til stuðnings sveitarfélögum fyrir börn á flótta og fjölskyldur þeirra með það að markmiði að brúa bilið fram að hausti. Þá styrkti ráðuneytið fjölbreytt tómstunda- og menntunarúrræði sveitarfélaga fyrir börn á flótta og undirbúning skólastarfs í haust.