Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Í Samráðsgátt stjórnvalda er að finna drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Umsagnarfrestur rennur út í dag, 20. október.

Í reglugerðardrögunum er lagt til að breyting verði á útreikningi tekjujöfnunarframlaga. Í stað þess að lækka meðaltekjur í viðmiðunarflokkum svo að framlög stemmi við það fjármagn sem er til ráðstöfunar leggur Jöfnunarsjóður til að framlögin verði aðlöguð fjárhæðinni með hlutfallsreikningi. Sú aðferð yrði í samræmi við gildandi framkvæmd Jöfnunarsjóðs þegar kemur að öðrum framlögum sjóðsins sem aðlaga þarf að tiltekinni fjárhæð.

Með breytingunni er ætlunin, auk annars, að fjölga þeim sveitarfélögum sem hljóta tekjujöfnunarframlög. Að mati Jöfnunarsjóðs myndi breytingin einnig leiða til frekari tekjujöfnunar sveitarfélaga. Sem dæmi um áhrif breytingarinnar hafa sum sveitarfélög, sem hafa hámarkstekjur á bilinu 94-97% af meðaltali hvers viðmiðunarflokks, ekki fengið úthlutað framlagi á grundvelli núgildandi framkvæmdar en myndu hljóta tekjujöfnunarframlag yrði breytingin að veruleika.Gert er ráð fyrir því að ef til þess kemur að breytingin taki strax gildi og færi því um útgreiðslu framlagsins þann 1. nóvember næstkomandi í samræmi við hina nýju aðferð við útreikning framlagsins.

Að áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði verið æskilegt að hafa lengri aðdraganda að setningu reglugerðarinnar en sambandið mælir engu að síður með samþykkt hennar.

Að áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga eru heildaráhrif reglugerðarbreytingarinnar því í meginatriðum jákvæð fyrir sveitarfélög og innan þess svigrúm til útfærslu sem kveðið er á um í 13. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.