29. nóv. 2016

Drög að nýrri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks

Frá árinu 2012 hefur verið unnið að málefnum fatlaðs fólks á grundvelli sérstakrar framkvæmdaáætlunar sem Alþingi fjallar um og samþykkir á formi þingsályktunar. Upphaflegri áætlun var ætlað að gilda 2012-2014 en hún var síðan framlengd til loka yfirstandandi árs.

Gildandi áætlun hefur að geyma 43 tímasettar aðgerðir á átta málasviðum. Velferðarráðuneytið hefur nú birt stöðu- og árangursmat vegna þessara aðgerða en margar þeirra tengjast einnig Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var í haust af Íslands hálfu. Þá er unnið að gerð frumvarps um sjálfstæða mannréttindastofnun á vegum Alþingis. 

Frá því í september á síðasta ári hefur starfshópur unnið að nýrri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem miðað er við að gildi fyrir árabilið 2017-2021. Starfshópurinn hefur nú kynnt fyrstu drög áætlunarinnar, þar sem fram koma tillögur um 38 aðgerðir á sjö málasviðum. Óskað er eftir umsögnum um þessi fyrstu drög en þau verða áfram til vinnslu hjá starfshópnum, m.a. með tilliti til kostnaðarmats og forgangsröðunar á þeim fjölmörgu aðgerðum sem í byrjun er lagt upp með. Niðurstaða starfshópsins mun síðan berast ráðuneytinu og er þess vænst að ráðherra geti fljótlega á nýju ári mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017-2021.

Frestur til þess að skila inn umsögnum um fyrstu drög áætlunarinnar er til 16. desember n.k. Sveitarfélög eru sérstaklega hvött til þess að lýsa áherslum sínum varðandi aðgerðir sem að þeim snúa. Fulltrúi sambandsins í starfshópnum var Tryggvi Þórhallsson lögfræðingur og veitir hann nánari upplýsingar um málið ef þörf er á.