Þann 8. október sl. kvað Landsréttur upp dóm í máli sem varðaði meint brot sveitarfélags á umsækjanda um notendastýrða persónulega aðstoð.
Í dómnum snýr Landsréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði dæmt sveitarfélagið til greiðslu miskabóta og málskostnaðar ásamt því að viðurkenna skaðabótaskyldu sveitarfélagsins vegna fjártjóns. Landsréttur sýknar sveitarfélagið hins vegar af öllum dómkröfum.
Málsmeðferð og möguleg bótaskylda sveitarfélagsins
Í málinu var deilt á málsmeðferð sveitarfélagsins, bæði út frá meginreglum stjórnsýsluréttar um málshraða og jafnræði. Niðurstaða Landsréttar var að ekki væri um að ræða brot á jafnræðisreglu. Rétturinn taldi hins vegar að sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á að tafir á málsmeðferð hafi verið réttlætanlegar og hafi málsmeðferð því farið í bága við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga sem leitt gæti til skaðabótaskyldu. Stefndi hafi hins vegar ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna málsins, eins og rakið er í málsgrein 27 í dómi Landsréttar.
Varðandi miskabótakröfu segir í niðurstöðukafla dómsins:
Heimilt er samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Í athugasemdum í frumvarpi til laganna kemur fram að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi þurfi þó að vera verulegt til þess að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð. Í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins. Í ljósi alls þess sem að framan er rakið þykja ekki vera efni til að fallast á það með stefnda að áfrýjandi hafi við meðferð málsins komið þannig fram við hann að í því hafi falist ólögmæt meingerð í hans garð sem veiti honum rétt til miskabóta úr hendi áfrýjanda samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði.
Skilyrði um kostnaðarhlutdeild ríkisins
Það álitaefni í dómnum sem hefur mest fordæmisgildi fyrir sveitarfélög almennt snýr að ágreiningi um hvort lögmætt hafi verið að setja það skilyrði af hálfu sveitarfélagsins fyrir gerð NPA samnings að fyrir lægi samþykki ríkis fyrir 25% kostnaðarhlutdeild. Um það segir í niðurstöðukafla:
Sveitarfélög í landinu bera samkvæmt lögum nr. 38/2018 ábyrgð á framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk. Svo sem að framan er rakið er kostnaði við framkvæmd þjónustunnar þó skipt milli ríkis og sveitarfélaga á rúmlega fjögurra ára innleiðingartímabili og er ekki gert ráð fyrir að ábyrgðin verði alfarið á herðum sveitarfélaga fyrr en frá og með árinu 2023. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar skulu sveitarfélög ráða málefnum sínum sjálf eftir því sem lög ákveða og samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skulu tekjustofnar sveitarfélaga ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Sveitarfélög hafa samkvæmt framansögðu sjálfstjórn í þeim málum sem löggjafinn hefur falið þeim og fara sjálf með forræði eigin tekjustofna. Þau ein eru samkvæmt stjórnarskrá og lögum bær til að taka ákvarðanir um framkvæmd lögbundinna verkefna eða stofna til útgjalda vegna þeirra umfram það sem lög kveða á um. Á þessum grunni verður ekki fallist á með stefnda að áfrýjanda hafi borið að semja við hann um notendastýrða persónulega aðstoð óháð því hvort ríkið var búið að efna þær lögbundnu skyldur sem á því hvíldu um að fjármagna þjónustuúrræðið á móti áfrýjanda. Samkvæmt framansögðu var áfrýjanda heimilt að binda samkomulag hans og stefnda, um úthlutun vinnustunda á grundvelli umsóknar um notendastýrða persónulega aðstoð, fyrirvara um samþykki fyrir hlutdeild ríkisins, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1250/2018.
Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvort sótt verði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.