Dökkar horfur og krafa um viðræður við ríkið

Á fundi stjórnar sambandsins föstudaginn 24. apríl sl. var fjallað um áhrif Covid-19 á sveitarfélögin og þá sérstaklega hugsanlegt tekjufall þeirra.

Á fundi stjórnar sambandsins föstudaginn 24. apríl sl. var fjallað um áhrif Covid-19 á sveitarfélögin og þá sérstaklega hugsanlegt tekjufall þeirra. Á fundinum samþykkti stjórn eftirfarandi bókun:

Ljóst er að mikilvægi nærþjónustunnar sem sveitarfélögin veita hefur sjaldan verið meiri en nú. Með vísan til þeirrar vinnu sem sambandið hefur lagt í greiningu á stöðunni og til minnisblaðs Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til fjármála- og efnahagsráðherra, telur sambandið mikilvægt að ríkissjóður komi að málum með fjölbreyttum almennum aðgerðum og með beinum fjárhagslegum stuðningi til að verja þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna á landinu öllu. Við þessar aðstæður er mikilvægt að sveitarfélögin hafi nægan fjárhagslegan styrk og svigrúm til þess að halda uppi þjónustu við íbúa, ráðast í nauðsynlega fjárfestingu og uppbyggingu og tryggja framlög til skólahalds, velferðarþjónustu, íþrótta- og menningarstarfsemi svo fátt eitt sé nefnt. Gangi þau áhrif eftir sem lýst hefur verið verður rekstur sveitarfélaganna þungur um langan tíma og verður ekki leystur með lántökum og niðurskurði í þjónustu sveitarfélaganna.

Á fundinum var einnig samþykkt að boða til auka stjórnarfundar 29. apríl með formönnum landshlutasamtaka og borgarstjóra til að fjalla nánar um stöðu efnahagsmála í ljósi þess ástands sem nú er í samfélaginu og til fá upplýsingar um stöðu mála í hverjum landshluta. Sá fundur fór fram í morgun og var eftirfarandi yfirlýsing, sem send hefur verið á forsætisráðherra, fjármálaráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála, samþykkt samhljóða:

Fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga með formönnum landshlutasamtaka sveitarfélaga haldinn þann 29.apríl 2020 áréttar fyrri bókun stjórnar sambandsins frá fundi 24.apríl sl. um nauðsyn þess að ríkisvaldið komi að málum með beinum fjárhagslegum stuðningi við sveitarfélögin og almennum og sérstökum aðgerðum að mæta þeirri stöðu sem komin er upp.

Ljóst er að aðstæður margra sveitarfélaga eru nú þegar með þeim hætti að erfitt getur verið að halda uppi nauðsynlegri nærþjónustu við íbúa . Því er mikilvægt að ríkissjóður komi frekar að málum, líkt og aðrar ríkisstjórnir á Norðurlöndunum, til að unnt sé að verja þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna á landinu öllu.

Fundurinn krefst þess að ríkisstjórnin kalli sambandið nú þegar að borðinu til viðræðna um hlut sveitarfélaga í næsta aðgerðarpakka ríkisvaldsins.

Tekjur sveitarfélaga munu lækka verulega

Á fundinum í morgun fjallaði Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs, um fjármál sveitarfélaga og lánsfjárþörf þeirra. Í máli hans kom fram að viðbúið væri að tekjur sveitarfélaga myndu lækka verulega og útgjöld, einkum vegna fjárhagsaðstoðar, myndu hækka. Sigurður setti fram tvær sviðsmyndir um þróun fjármála sveitarfélaga, annars vegar að atvinnuleysi yrði 10% árin 2020 og 2021, hins vegar að árið 2020 yrði atvinnuleysi 15% en 12% árið 2021.

Samkvæmt fyrri sviðsmyndinni verður veltufé frá rekstri A-hluta sveitarfélaga 43 milljörðum króna lægri árin 2020 og 2021 en fjárhagsáætlanir sögðu til um. Lánsfjárþörf sveitarfélaganna mun aukast eykst eftir þessari sviðsmynd um 53 milljarða króna þessum árum. Seinni sviðsmyndin leiðir til mun meiri lánsfjárþarfar og gæti hún numið um 65 milljörðum króna. Í máli Sigurðar kom fram að allra leiða yrði leitað til að mæta þessari auknu lánsfjárþörf. Nefndi hann sérstaklega þann möguleika að Seðlabanki Íslands kæmi að fjármögnuninni með kaupum á bréfum Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. og að ríkissjóður veitti framlög til sveitarfélaga til að gera þeim kleift að inna af hendi þá þjónustu við íbúana sem lög og reglur kveða á um.

Björn Þór Hermannsson og Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjórar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, komu á fund stjórnarinnar og gerðu grein fyrir stöðu og horfum í efnahagsmálum og búskapi hins opinbera. Drógu þeir upp dökka mynd af stöðunni á þessu ári en töldu að rofa myndi til á næsta ári.

Sameiginlegur fundur bæjar- og sveitarstjóra með stjórn sambandsins

Ljóst er að samstaða er mikil á meðal sveitarstjórnarmanna og verða málin rædd enn frekar mánudaginn 4. maí nk. en þá mun stjórn sambandsins funda með öllum bæjar- og sveitarstjórum á Íslandi og framkvæmdastjórum landshlutasamtaka. Næsti fundur stjórnar verður svo föstudaginn 8. maí nk. og verður það nánar fjallað um málin.