Dagur leikskólans og Orðsporið 2022

Þann 6. febrúar sl. var dagur leikskólans. Af því tilefni var Orðsporið 2022 veitt. Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem eru veitt þeim sem þykja hafa skarað fram úr í því að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna.

Að þessu sinni hlaut leikskólinn Aðalþing í Kópavogi Orðsporið 2022.

Leikskólinn Aðalþing fær Orðsporið fyrir framsækið skólastarf og metnað er kemur að starfsþróun og umbótastarfi. Einnig hefur leikskólinn ráðist í mörg þróunarverkefni enda stefna skólans að vera rannsóknarleikskóli í fararbroddi.

Á leikskólanum er hátt hlutfall réttindakennara í starfsmannahópnum en undanfarin misseri hafa þeir verið á bilinu 50-60 prósent starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun í leikskólanum. Meðalfjöldi réttindakennara við uppeldi og menntun í leikskólum landsins var 28% árið 2020.

Í leikskólanum eru 120 börn á aldrinum eins til sex ára og starfsmenn eru um þrjátíu talsins. Leikskólastjóri er Hörður Svavarsson en eigendur Aðalþings eru dr. Guðrún Alda Harðardóttir og Sigurður Þór Salvarsson.

Það voru þeir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara og Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla sem afhentu leikskólastjóra Aðalþings viðurkenningu síðastliðinn föstudag.

Þetta er í níunda skipti sem Orðsporið er veitt í tengslum við Dag leikskólans. Að Orðsporinu standa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, skóla og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og heimili og skóli.