Byggðastofnun spáir í mannfjölda fram til 2067

Hagstofa Íslands hefur með reglulegum hætti, árlega undanfarin ár, gefið út mannfjöldaspá fyrir landið allt.

Hagstofa Íslands hefur með reglulegum hætti, árlega undanfarin ár, gefið út mannfjöldaspá fyrir landið allt. Nýlega hóf Byggðastofnun að gefa út mannfjöldaspá fyrir einstök sveitarfélög (72 talsins), landshluta (8) og atvinnugreinasvæði (27). Spáin er byggð á mannfjöldaspá Hagstofunnar og mannfjöldalíkani Byggðastofnunar. Niðurstöður mannfjöldaspárinnar eru skalaðar við mið spá Hagstofunnar. Niðurstöður eru settar fram sem meðaltal, en jafnframt sýnt spábil 10.000 slembiúrtaka líkansins.

Fram haldi sem horfir

Forsenda spárinnar er „að fram haldi sem horfir“. Í því felst að ekki er spáð fyrir um breytta stefnumörkun á margvíslegum sviðum sem þó gætu haft áhrif á byggðaþróun. Við gerð mannfjöldaspárinnar er þannig ekki tekið tillit til eftirspurnar fólks á svæðum sem kann að myndast við fólksfækkun og gæti verið mætt með aðflutningi fólks frá útlöndum. Að sama skapi er ekki tekið tillit til metturnar byggingarlands eða annarra utanaðkomandi þátta er kunna að varða mannfjöldaþróun ýmissa svæða s.s. samgöngubóta og annarra stjórnvaldsákvarðana.

Byggðastofnunun hefur nýlega gefið út endurskoðaða spá fyrir árin 2020-2067. Spáin gefur vísbendingar um að fólki haldi áfram að fjölga á höfuðborgarsvæðinu með stöðugri fækkun víða á landsbyggðum. Hafa ber í huga að óvissa þessarar mannfjöldaspár er töluverð og þó að hún geti gefið þokkalega mynd af mannfjöldaþróun til skemmri tíma, t.d. 15 ára, verður að taka niðurstöðum til lengri tíma með fyrirvara.

Mannfjöldaþróun skiptir miklu fyrir afkomu og efnahag sveitarfélaga. Tilkoma mannfjöldaspáa Byggðastofnunar er því mikilvægt tæki fyrir sveitarfélög við vinnslu fjárhagsáætlana.