Gagnatorg hefur verið opnað á vef Byggðastofnunar. Á Gagnatorginu eru lýðfræðilegar upplýsingar um íbúaþróun fyrir allt landið, eftir landshlutum, sveitarfélögum, kyni, aldri, ríkisfangi og fjölskyldugerð. Auk þess eru upplýsingar um íbúaveltu, framfærsluhlutfall og lýðfræðilega veikleika.
Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi (SASS) áttu frumkvæðið að því að setja upp Gagnatorgið. Gagnatorgið nýtist m.a. við stefnumótun stjórnvalda og sveitarfélaga í byggðamálum og við að meta árangur ýmissa áætlana s.s. sóknaráætlana og byggðaáætlunar. Framfærsluhlutfall og lýðfræðilegir veikleikar eru tveir mælikvarðar af sex sem skilgreindur eru í núverandi byggðaáætlun.
Þetta er mjög áhugavert, og tilefni til að kynna vel fyrir sveitarfélögum ef þau hafa ekki þegar fengið kynningu frá Byggðastofnun. Það hlýtur að vera gagnlegt fyrir þau að skoða lýðfræðilega „veikleika” eða hættumerki td við fjárhagsáætlanagerð til 3 ára og stefnumótun. Gögnin sýna rauð flögg í sumum landshlutum þegar litið er til fæðingartíðni og dánartíðni og hlutfalls íbúa eftir aldursflokkum.
Valgerður Freyja Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga
Mjög gott verkfæri og fjöður í hatt Byggðastofnunar og þeirra sveitarfélaga sem komu að mótun gagnatorgsins.
Hnappur til að opna gagnatorgið er hægra megin á vefsíðu Byggðastofnunar. Einnig hægt að fara inn á gagnatorgið hér.