Brottfall úr námi veldur vaxandi áhyggjum

Brottfall úr framhaldsskólum er vaxandi áhyggjuefni á Norðurlöndunum, en rannsóknir sýna að 20-30% framhaldsskólanema eru horfnir frá námi við 20 ára aldurinn. Nýverið stóðu norræna velferðarnefndin og norræna þekkingar- og menningarnefndinni fyrir hringborðsumræðum um brottfall úr framhaldsskólum. Skýr forvarnarstefna í lýðheilsumálum og snemmtæk íhlutun voru þau úrræði sem helst báru á góma gegn þessu vaxandi, samnorræna vandamáli.

Brottfall úr framhaldsskólum er vaxandi áhyggjuefni á Norðurlöndunum, en rannsóknir sýna að 20-30% framhaldsskólanema eru horfnir frá námi við 20 ára aldurinn. Nýverið stóðu norræna velferðarnefndin og norræna þekkingar- og menningarnefndinni fyrir hringborðsumræðum um brottfall úr framhaldsskólum. Skýr forvarnarstefna í lýðheilsumálum og snemmtæk íhlutun voru þau úrræði sem helst báru á góma gegn þessu vaxandi, samnorræna vandamáli.

Á meðal þess sem kom fram í hringborðsumræðum var að svigrúm kennara til að sinna eiginlegri kennslu fari minnkandi og að þverfagleg starfsteymi gætu orðið til þess að kennarar geti sinnt nemendum betur varðandi námið.  Í slíkum starfsteymum væri starfsfólk úr félagsþjónustunni, markþjálfar og sálfræðingar svo að dæmi séu nefnd.

Einnig var rætt um mikilvægi þess að vinna þverpólitísk að málum og að þarfir barna og ungmenna séu ætíð settar skörinni ofar afmörkuðum faglegum hagsmunum.

Forvarnir eru afgerandi þáttur

Þá kom einnig fram að forvarnir væru afgerandi þáttur í baráttunni gegn brottfalli, en það er verulegt á framhaldsskólastigi á öllum Norðurlöndunum eða 20-30% þegar 20 ára aldri er náð. Þá sýnir reynslan að endurheimt nemenda sem eru hættir framhaldsnámi gangi jafnvel enn verr í iðn- og verkmenntun en í bóknámi.

Vandinn sem af þessari þróun hlýst er aðallega vinnumarkaðstengdur, segir í frétt frá Norðurlandaráði um málið. Brottfallnir fóti sig verr á vinnumarkaði, með neikvæðum afleiðingum fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild.

Helstu orsakir brottfalls eru margvíslegar, s.s. persónuleg eða fjölskyldutengd vandamál. Einnig geta námserfiðleikar komið við sögu, auk þess sem iðulega megi greina áhættuþætti í félagsefnahagslegu samhengi þeirra sem falla brott. Þá fari andleg vanlíðan hjá ungu fólki einnig vaxandi.

Meginniðurstaða umræðanna var sú, að vinna megi gegn brottfalli á grundvelli skýrrar lýðheilsustefnu með áherslu á  fyrirbyggjandi aðgerðir gegn þeim þáttum sem stuðli að því að ungt fólk hverfi frá námi. Svo að takast megi með árangursríkum hætti á við þessar áskoranir sé jafnframt mikilvægt að félagsþjónustu- og menntageirar vinni saman og axli sameiginlega ábyrgð á því vandmeðfarna verkefni að draga úr brottfalli.