Sóttvarnalæknir hefur endurskoðað leiðbeiningar um sóttkví á öllum skólastigum og í frístundastarfi og félagsmiðstöðvum. Með breytingunum má gera ráð fyrir að færri þurfi að sæta sóttkví ef smit kemur upp.
Í meðfylgjandi leiðbeiningum eru skilgreind viðmið um sóttkví eftir því hvort samvera við smitaðan einstakling hafi verið mikil eða ekki. Ef samskipti hafa ekki verið mikil samkvæmt skilgreiningu verður ekki gerð krafa um sóttkví heldur smitgát og getur viðkomandi þá mætt í skólann. Hraðpróf verða notuð þegar í hlut eiga einstaklingar sem einungis þurfa að sæta smitgát, eins og nánar er skýrt í meðfylgjandi leiðbeiningum.
Kveðið verður á um breyttar reglur um sóttkví í samræmi við meðfylgjandi leiðbeiningar með breytingu á reglugerð nr. 747/2021 um sóttkví og einangrun. Reglugerðin gildi næstkomandi þriðjudag.