06. júl. 2015

Breytt stjórnsýsla þegar land er leyst úr landbúnaðarnotum

Á nýafstöðnu vorþingi voru samþykktar breytingar á jarðalögum nr. 81/2004 sem m.a. varða stjórnsýslu mála þar sem gerð skipulagsáætlana kallar á breytta landnotkun á svæði sem áður taldist vera í landbúnaðarnotum.

Breytingarnar tóku gildi þann 10. júní sl. og hafa áhrif á það hvernig sveitarfélög framkvæma ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 um ákvörðun landnotkunar. Kalli endurskoðun eða breyting á skipulagi á aðra landnotkun lands sem skipulagt hefur verið sem landbúnaðarsvæði, skal sveitarfélag óska skriflega eftir leyfi landbúnaðarráðherra áður en slík tillaga nær fram að ganga. Þannig er óheimilt að breyta landnotkun á landbúnaðarsvæði sem er 5 hektarar eða stærra, nema leyfi ráðherra liggi fyrir. Ef beiðni um breytingu á landnotkun varðar fleiri en eitt svæði, sem ber að skoða sem eina heild, skal miða við að landsvæðið í heild sé 5 hektarar eða stærra. Jafnframt er óheimilt að breyta landnotkun á landsvæði sem er minna en 5 hektarar ef um er að ræða gott ræktunarland, land sem hentar vel til landbúnaðar eða land sem vegna legu sinnar telst að öðru leyti mikilvægt vegna matvælaframleiðslu. Leyfi ráðherra þarf fyrir lausn úr landbúnaðarnotum í þessum tilvikum.

Sveitarfélag skal óska skriflega eftir leyfi ráðherra áður en landnotkun er breytt með nýju eða endurskoðuðu skipulagi. Þegar sveitarfélög leggja mat á það hvort afla skuli leyfis ráðherra (hvort sem svæði er stærra eða minna en 5 hektarar) skal annars vegar taka mið af flokkun landbúnaðarlands í aðalskipulagi og hins vegar stefnu stjórnvalda um flokkun landbúnaðarlands. Liggi flokkun landbúnaðarlands ekki fyrir skal sveitarfélag óska eftir umsögn ráðunautar um viðkomandi land þar sem leggja skal mat á stærð lands, staðsetningu lands, ræktunarskilyrði, ræktun sem þegar er þar stunduð eða er fyrirhuguð og hvort breyting á landnotkun hafi áhrif á aðliggjandi landbúnaðarsvæði.

Beiðni sveitarfélaga um leyfi á að berast skriflega til ráðherra, ásamt skipulagstillögu og nauðsynlegum gögnum. Ráðherra ber að taka afstöðu til beiðni um breytingu á landnotkun innan fjögurra vikna frá því að beiðni sveitarfélags berst til hans ásamt nauðsynlegum gögnum.

Frumvarp það sem nú er orðið að lögum var til meðferðar á Alþingi í vetur og fór fram töluverð umræða um það hvort eðlilegt sé að ákvæði jarðalaga gangi með þessum hætti framar því almenna ferli skipulagsmála sem lög gera ráð fyrir. Í umsögn sinni um frumvarpið taldi sambandið að ákvarðanir um lausn lands úr landbúnaðarnotum (og landskipti) ættu að byggja á aðstæðum heima í héraði og að mat á þeim stæði sveitarfélögunum nær en ráðuneytinu. Sambandið lagðist því gegn tillögu um að landbúnaðarráðherra hefði neitunarvald gagnvart tillögum sem sveitarfélögin væru að vinna með í sinni skipulagsgerð. Bent var á að betur færi á því að stjórnvöld landbúnaðarmála kæmu afstöðu sinni á framfæri, eins og almennt gildir við gerð aðalskipulags, og að sjónarmið um búrekstur og ræði ræktunarlands séu þar vegin á móti öðrum sjónarmiðum sem aðrir aðilar kynnu að lýsa. Sambandið benti sérstaklega á að hér á landi væri ekki skortur á landbúnaðarlandi, en hins vegar væri þörf fyrir skýrari stefnu um landnýtingu, t.d. hvar væri hentugt að rækta skóg, reisa ný sumarhúsahverfi, leggja raflínur o.s.frv. Sú stefna væri mögulega að birtast í landskipulagsstefnu og því væri ekki þörf á að skerða skipulagsvald sveitarfélaga eins og lagt væri til.

Þessi sjónarmið sambandsins fengu stuðning m.a. frá stjórn bændasamtakanna sem taldi mikilvægt að sjálfsstjórnarvald sveitarfélaganna til þess að ráða skipulagi hafi ekki of þröngar skorður. Óhjákvæmilegt sé að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað og að sveitarfélögin sjálf hafi óskorað vald til þess að marka sína eigin stefnu í þessum efnum. Hliðstæð sjónarmið komu fram í umsögn frá formanni stjórnskipaðrar nefndar um athugun á nýtingu og varðveislu ræktanlegs lands á Íslandi.

Þrátt fyrir þessi varnaðarorð náði frumvarpið fram að ganga. Því er sveitarfélögum nú skylt að afla leyfis landbúnaðarráðherra fyrir tillögum um að breyta landnotkun á landbúnaðarsvæðum í þeim tilvikum sem að ofan greinir.