Breytingar sem efla leikskólastarf

Starfshópur um styrkingu leikskólastigsins hefur skilað lokaskýrslu sinni til ráðherra. Hópurinn leggur fram fjölþættar tillögur um hvernig efla megi skólastarf á leikskólastigi, m.a. um endurskoðun á aðalnámskrá leikskóla, reglugerð um starfsumhverfi leikskóla og byggingarreglugerð.

Tillögurnar eru nú til umfjöllunar í ráðuneytinu, m.a. í samhengi við fyrstu innleiðingaráætlun nýrrar menntastefnu sem kynnt verður í haust.

Leiðarljós í starfi og tillögum hópsins voru að hagsmunir barna væru hafðir í forgrunni í öllu starfi leikskóla, og að byggt væri á bestu þekkingu hverju sinni. Aukin gæði og fagmennska styrki starf leikskólanna og auki vægi þeirra sem eftirsóknarverðra vinnustaða. Með það markmið að bjóða bestu mögulegu námsskilyrði fyrir leikskólabörn er mikilvægt að fjölga starfandi leikskólakennurum og stuðla að öflugri starfsþróun alls starfsfólks í leikskólum.

Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur í eftirfarandi sex köflum:
1. Hagsmunir barna leiðarljós í leikskólastarfi.
2. Gæðaviðmið leikskóla, innra og ytra mat.
3. Fjölgun leikskólakennara.
4. Menntun og starfsþróun.
5. Starfsumhverfi leikskóla.
6. Hlutverk Menntamálastofnunar.

Það er mat starfshópsins að tillögurnar muni, ásamt skýrari ramma, fjölgun undirbúningstíma og styttingu vinnuvikunnar, jafna starfsaðstæður á milli skólastiga.

Í starfshópnum sátu fulltrúar helstu hagsmunaaðila leikskólasamfélagsins og leitaði hópurinn eftir sjónarmiðum fleiri aðila meðal annars með samtali við Kennararáð og ýmsa sérfræðinga í málefnum leikskóla ásamt því að senda könnun til starfsmanna 50 leikskóla þar sem ekki var hægt að halda fundi víða um land eins og áætlað hafði verið.