Breytingar í þágu barna

Alþingi samþykkti í dag fjögur frumvörp félags- og barnamálaráðherra, sem tengjast málefnum barna.

Um er að ræða frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, frumvarp um Barna- og fjölskyldustofu og frumvarp um Gæða og eftirlitsstofnun velferðarmála, auk frumvarps um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þá var þingsályktunartillaga um Barnvænt Ísland einnig samþykkt. Málin eru öll hluti af þeirri vinnu sem hefur farið fram í félagsmálaráðuneytinu undanfarin ár við að endurskoða og efla þjónustu og stuðning við börn og fjölskyldur, en ráðherra hefur sett málefni barna í forgang í embætti sínu. Verkefnið er umfangsmikið og felur í sér mestu breytingu sem gerð hefur verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna

Nýsamþykkt frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna miðar að því að tryggja börnum og aðstandendum þeirra, snemmbæran, samþættan stuðning þvert á kerfi. Því er ætlað að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn og tryggja að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Markmiðið með því er að láta mismunandi hluta kerfisins tala betur saman og loka gráu svæðum, þannig að barnið verði hjartað í kerfinu. Það tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum.

Í því er lögð rík áhersla á að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana, ef á þarf að halda. Með þessari nýju löggjöf fá öll börn og fjölskyldur þeirra tengilið í nærumhverfi fjölskyldunnar og er lögð rík áhersla á grípa snemma inn í ef þörf er á.

Barna- og fjölskyldustofa

Barna- og fjölskyldustofa mun sinna verkefnum sem tengjast samþættingu þjónustu og almennri velferðarþjónustu í þágu barna. Með stofnun Barna- og fjölskyldustofu verður Barnaverndarstofa lögð niður og flest verkefni hennar flytjast til nýrrar stofnunar. Barna- og fjölskyldustofa mun sjá um uppbyggingu úrræða og yfirstjórn heimila og stofnana fyrir börn sem nú er í höndum Barnaverndarstofu. Þá mun stofnunin sinna stuðningi við sveitarfélög og aðra þjónustuaðila vegna þjónustu í þágu barna.

Gæða og eftirlitsstofnun velferðarmála

Með stofnun Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála verður Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar lögð niður. Markmiðið með stofnun nýrrar stofnunar er að styrkja eftirlit með gæðum velferðarþjónustu sem Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar hefur hingað til sinnt ásamt því að vinna eftir þeirri hugsun sem boðuð er í samþættingarlöggjöfinni. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála mun m.a. fara með eftirlit með gæðum samþættingar þjónustu í þágu barna og eftirlit með barnaverndar­þjón­ustu sem nú er sinnt af Barnaverndarstofu.

Greiningar- og ráðgjafarstöð

Greiningar- og ráðgjafrastöð ríkisins breytist í Greiningar- og ráðgjafastöð. Með nýsamþykktu frumvarpi um þá stofnun er hlutverk hennar aðlagað að því að sinna betur verkefnum sem tengjast auknu samstarfi og samþættingu þjónustu í þágu barna. Lögð er rík áhersla á að ryðja burt hindrunum sem kunna að vera á því að börn njóti þjónustu sem þau eiga rétt á og að samvinna þjónustukerfa sé best til þess fallin að stuðla að því að barn fái þjónustu við hæfi.

Barnvænt Ísland

Þingsályktunartillaga félags- og barnamálaráðherra um stefnu um Barnvænt Ísland, markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, var samþykkt á Alþingi í gær. Með stefnunni verður innleitt verklag og ferlar sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar, samstarf milli opinberra aðila með velferð barna að leiðarljósi aukið, ásamt því að tryggja markvisst verklag við hagsmunamat út frá réttindum og velferð barna, auk heildstæðrar framkvæmdar réttinda barna.