13. sep. 2017

Breytingar í lífeyrismálum kölluðu á nýjar reglur um fjármál sveitarfélaga

  • Merki_Bru-hvitt

Merki_Bru-hvittSamhliða jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði, hefur sveitarfélögum verið ætlað að gera upp framtíðarhalla A-deildar Brúar með einskiptisframlagi.  Um  verulegar fjárhæðir er að ræða, sem hefðu að óbreyttu raskað fjárhagslegum grundvelli sveitarfélaganna til skemmri tíma litið.

Með breytingum á lögum um A-deildar LSR og samþykktum samsvarandi deildar Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga voru lífeyrisréttindi jöfnuð milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Í því fólst m.a. að sveitarfélögum ber að gera upp framtíðarhalla A-deildar Brúar með einskiptisframlagi. 

Hér er um að ræða verulegar fjárhæðir sem að óbreyttu hefðu raskað fjárhagslegum grundvelli sveitarfélaganna til skamms tíma.

Tvær reglugerðarbreytingar voru gerðar til að koma í veg fyrir þetta og voru þær gerðar í samstarfi milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Annars vegar felur breyting á reglugerð nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga í sér að umrædd framlög sveitarfélaganna verða gjaldfærð yfir líftíma skuldabréfa sem gefin eru út í tengslum við þau en ekki í heilu lagi strax á útgáfudegi.

Hins vegar var reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga (nr. 502/2012) breytt þannig að horft er framhjá fyrrnefndum  skuldabréfum við útreikning á skuldaviðmiði sveitarfélaga.

Hefði þessi breyting ekki komið til hefðu fjölmörg sveitarfélög ekki staðist skuldareglu sveitarstjórnarlaganna sem kveður á um að skuldir og skuldbindingar samstæðu sveitarfélaga (A og B-hluta reikninganna) séu ekki hærri en 150% af reglulegum tekjum.