08. júl. 2015

Breytingar á viðmiðunarreglum Kirkjugarðaráðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga

 

Í 12. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, sbr. lög nr. 32/2002, segir að Kirkjugarðaráð setji viðmiðunarreglur í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fram komi hvað felist í skyldu sveitarfélaga til að leggja til hæfilegt kirkjugarðsstæði og efni í girðingu.

 

Árið 2007 voru settar viðmiðunarreglur á grundvelli laganna og hafa þær gilt óbreyttar síðan. Nú hafa verið gerðar breytingar á tveimur greinum reglnanna, 6. og 12. gr., og hafa reglurnar því verið gefnar út að nýju.

 

Breytingar á 6. og 12. gr.:

6. gr. Kostnaðaráætlun til eins árs

Skv. eldri reglum:

Auk samráðs og upplýsinga samkvæmt 5. gr. ber kirkjugarðsstjórn að láta sveitarfélagi tímanlega í té ítarlega kostnaðaráætlun fyrir næsta ár vegna þeirra verka sem hún telur að sveitarfélagið eigi að kosta að hluta eða öllu leyti.

Í kostnaðaráætlun skal m.a. tilgreina fyrirhugaðar framkvæmdir og verk, upplýsingar um magntölur og áætluð einingaverð, svo og hvernig kostnaður skiptist milli sveitarfélags og kirkjugarðs.

Kostnaðaráætlun þarf að afhenda sveitarfélagi áður en það lýkur vinnu við gerð fjárhagsáætlunar þess árs sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar á. Almennt þarf því slík áætlun að liggja fyrir eigi síðar en í byrjun október árið áður en framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Skv. nýjum reglum:

Auk samráðs og upplýsinga samkvæmt 5. gr. ber kirkjugarðsstjórn að láta sveitarfélagi tímanlega í té ítarlega kostnaðaráætlun fyrir næsta ár vegna þeirra verka sem hún telur að sveitarfélagið eigi að kosta að hluta eða öllu leyti.

Í kostnaðaráætlun skal m.a. tilgreina fyrirhugaðar framkvæmdir og verk, upplýsingar um magntölur og áætluð einingaverð, svo og hvernig kostnaður skiptist milli sveitarfélags og kirkjugarðs.

Kostnaðaráætlun þarf að afhenda sveitarfélagi áður en það lýkur vinnu við gerð fjárhagsáætlunar þess árs sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar á. Slík áætlun skal liggja fyrir eigi síðar en í byrjun október árið áður en framkvæmdir eru fyrirhugaðar nema sveitarstjórn hafi veitt rýmri frest.

Þar sem afgreiðsla sveitarstjórnar á fjárhagsáætlun næsta árs felur í sér bindandi ákvörðun um allar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarfélagsins á því ári sem hún tekur til koma reikningar, sem ekki er gert ráð fyrir í kostnaðaráætlun skv. 1. mgr., að jafnaði ekki til greiðslu fyrr en næsta fjárhagsár þar á eftir.

12. gr. Framræsla lands

Skv. eldri reglum:

Þar sem land er of blautt og framræslu er þörf kostar sveitarfélagið framræsluna. Hér er átt við gröft, lagningu drenlagna og fyllingu yfir drenlagnir.

Sveitarfélag hefur almennt forræði á því hvort það annast verkið sjálft eða felur kirkjugarðsstjórn framkvæmd þess, sbr. 8. gr.

Skv. nýjum reglum:  

Þar sem land er of blautt og framræslu er þörf kostar sveitarfélagið framræsluna, svo sem gröft, lagningu drenlagna og fyllingu yfir drenlagnir.

Sveitarfélag hefur almennt forræði á því hvort það annast undirbúning og framkvæmd verksins sjálft eða felur kirkjugarðsstjórn framkvæmd þess, sbr. 8. gr.