22. nóv. 2016

Breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna

  • Halldor_Halldorsson

Þann 19. september sl. var undirritað samkomulag um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Viðræður höfðu staðið yfir í langan tíma áður en þau ánægjulegu tímamót runnu upp að hægt væri að undirrita samkomulagið sem er á milli ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. sveitarfélaganna í landinu, BHM, BSRB og Kennarasambandsins. Þetta samkomulag er hugsað sem stór og mikilvægur áfangi í því að jafna lífeyrisréttindin í landinu sem talað er um á tyllidögum og til þess að bæta hið íslenska vinnumarkaðsmódel og færa það meira til samræmis við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum.

Þegar kom að því að breyta lögum til að samkomulagið gæti komist til framkvæmda kom hik á samningsaðila ríkis og sveitarfélaga með þeim afleiðingum að engin lagabreyting fór í gegnum þingið og stendur samkomulagið eftir og bíður þess að efni þess verði framkvæmt.

Þetta þýðir að í stað þess að mæta halla þessara lífeyrissjóða með skuldayfirlýsingum sem kæmu til greiðslu á næstu þrjátíu árum stefnir að óbreyttu í að sveitarfélögin þurfi að standa undir hækkun mótframlaga í þessa lífeyrissjóði um 3,6-4,5%. Viðbótarlaunakostnaður sveitarfélaga vegna þessa á næsta ári nemur um 3,5 milljörðum króna. Heildarframlög í þessa opinberu lífeyrissjóði munu því með mótframlagi starfsmanna verða 19,1-20,8% af launum.

Það er umhugsunarefni þegar um fimmtungi launakostnaðar er varið til að standa undir launum starfsmanna eftir starfslok í stað þess að greiða hluta þeirra jafnharðan til starfsmanna og auka þannig samtíma ráðstöfunartekjur þeirra. Þetta á sérstaklega við um ungt fólk sem með ærnum tilkostnaði þarf að tryggja sér öruggt húsnæði fyrir sig og sína snemma á lífsleiðinni.

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna er mjög ósanngjarnt gagnvart yngra fólki. Það byggir á jafnri réttindaávinnslu sem þýðir að iðgjöldum þeirra yngri er varið að hluta til að standa undir réttindaávinnslu hinna eldri. Frá þessu fyrirkomulagi stóð til að hverfa með samkomulaginu. Jafnframt var stefnan sett á eitt sambærilegt og sjálfbært lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Slíkt kerfi er ekki aðeins sanngjarnt vegna þeirra yngri heldur einnig gagnvart þeim sem starfa á almennum vinnumarkaði og njóta nú breytilegra réttinda í samræmi við heildariðgjald sem nemur 12,5% af launum. Árið 2018 er stefnt að því að það verði 15,5% eins og það er nú hjá opinberu lífeyrissjóðunum. Á almennum vinnumarkaði er miðað við 67 ára lífeyristökualdur en hann er 65 ár hjá opinberum starfsmönnum. Samkvæmt samkomulaginu átti sú viðmiðun að hækka í 67 ár til jöfnunar við almenna markaðinn. Einnig ber að hafa í huga að það eru fyrst og fremst skatttekjur sem allir launamenn greiða sem standa undir launakostnaði og lífeyrisútgjöldum hjá sveitarfélögum.

Í bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga til nýkjörinna alþingismanna eru þeir hvattir til að taka þetta mál upp aftur sem allra fyrst eftir kosningar og ljúka því fyrir næstu áramót svo ekki þurfi að koma til þeirra hækkunar á mótframlagi í opinbera lífeyrissjóði sem verður að veruleika 1. janúar 2017 að óbreyttu.

Halldór Halldórsson
formaður