Breytingar á kosningalögum

Undir lok vorþings 2023 voru gerðar breytingar á kosningalögum sem miðuðu að því að sníða af þá vankanta sem komið höfðu í ljós í sveitarstjórnarkosningum vorið 2022. Samhliða því voru gerðar breytingar á öðrum lögum sem haft geta áhrif á sveitarfélög.

Helstu breytingar sem gerðar er á lögunum sem varða sveitarfélög eru eftirfarandi:

 1. Heiti sveitarfélaga:
  Breytt heitum á sveitarfélögum sem sameinast hafa eftir gildistöku laganna.
 2. Hæfisreglur:
  Hæfisreglum hefur verið breytt töluvert. Þær hæfisreglur sem settar voru í ný kosningalög reyndust of strangar við framkvæmd síðustu sveitarstjórnarkosninga. Breytingarnar felast í því að kjörstjórnarmenn og fulltrúar í landskjörstjórn verði einungis vanhæfir og þurfi að víkja sæti ef til úrskurðar er mál er varðar maka þeirra  eða sambúðarmaka, eða þann sem er skyldur þeim eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða er tengdur með sama hætti við ættleiðingu. Það er því ekki almennt vanhæfi þeirra sem gegna þessum störfum ef aðili sem er tengdur þeim er yfir höfuð á lista heldur eingöngu ef til úrskurðar mál sem sérstaklega varðar viðkomandi einstakling sem tengdur er fulltrúum í Landskjörstjórn eða einstakra kjörstjórnarmanna. Hvað kjörstjóra varðar þá gildir sama hæfisregla og var áður í eldri kosningalögum þar sem kjörstjóri skal einungis víkja sæti ef hann sjálfur er í framboði.
 3. Kjördagur:
  Kjördagur er færður fram til þriðja laugardags í maí.
 4. Breytingar varðandi gögn sem fylgja framboðslista og úthlutun listabókstafs í kosningum til sveitarstjórna:
  Ákvæði 39. gr. laganna er skipt upp þannig að talið er annars vegar upp hvaða gögn skuli fylgja í kosningum til Alþingis og hins vegar til sveitarstjórnar. Þá er sett inn sérstakt ákvæði í lög um starfsemi stjórnmálasamtaka  varðandi úthlutun listabókstafs til stjórnmálasamtaka í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.
 5. Reglugerðarheimild um hlutverk umboðsmanna stjórnmálasamtaka:
  Sett er reglugerðarheimild í lögin þar sem ráðherra er falið að setja reglugerð um réttindi og skyldur umboðsmanna stjórnmálaflokka, en misjafn skilningur var á hlutverki þessara aðila milli landshluta sem þarfnaðist nánari skilgreininga.
 6. Breyting á framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar:
  Smávægilegar breytingar eru gerðar á framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, s.s. varðandi opnunartíma á kjördegi, upplýsingar á umslagi, samnýtingu atkvæðakassa og ábyrgð kjósanda á að koma atkvæði til skila sé greitt atkvæði utan kjörfundar á kjördegi.
 7. Reglugerðarheimild varðandi óleyfilegan kosningaáróður í nágrenni kjörstaða og kosningaspjöll:
  Með nýjum kosningalögum voru ekki sett ítarleg ákvæði um valdheimildir kjörstjórna og kjörstjóra til þess að ekki fari fram kosningaáróður eða kosningaspjöll. Þessi hugtök voru heldur ekki skilgreind í lögunum. Sett er inn reglugerðarheimild ráðherra þar sem hann getur fjallað um þessi atriði.
 8. Kosningaúrslit og kosningaskýrslur:
  Í kosningalög eru sett ákvæði um að yfirkjörstjórn sveitarfélags beri að lýsa úrslitum kosninga til sveitarstjórna með því að birta á vef sínum upplýsingar um úrslit. Auk þess er komið á skyldu til að skila kosningaskýrslum til landskjörstjórnar sem henni ber að birta á vef sínum.
 9. Kostnaður ríkis og sveitarfélaga:
  Með nýjum kosningalögum eru gerðar tilteknar breytingar varðandi kostnaðarliði, þannig að fleiri kostnaðarliðir greiðist úr ríkissjóði en í gildandi lögum, s.s. kjörgögn og áhöld sem landskjörstjórn lætur sveitarfélögum í té greiðist úr ríkissjóði. Þá er kveðið skýrt á um að sveitarfélag beri ábyrgð á kostnaði vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, að því frátöldu að atkvæðagreiðsla hjá sýslumanni og á vegum utanríkisráðuneytisins greiðist áfram úr ríkissjóði.
 10. Rafræn kjörskrá:
  Í ákvæði kosningalaga er bætt við bráðabirgðaákvæði sem felst í því að notuð skuli prentuð kjörskrá þar til landskjörstjórn, ráðuneyti og Þjóðskrá Íslands hafa tekið ákvörðun um innleiðingu rafrænnar kjörskrár.
 11. Íbúakosningar sveitarfélaga:
  Gerðar eru breytingar á sveitarstjórnarlögum hvað varðar íbúakosningar til þess að einfalda framkvæmd þeirra. Helstu breytingar til einföldunar er að námsmenn sem flutt hafa lögheimili sitt vegna náms og almennt eiga rétt til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum eru undanskildir frá kosningarétti í íbúakosningum. Um er að ræða töluverða vinnu og fyrirvara sem þarf vegna tilkynninga til þessara aðila um kosningarétt. Ef íbúakosning er ekki bindandi er heimilt að útvíkka kjörskrá þannig að aldurstakmark sé lækkað og erlendir ríkisborgarar hafi frekari heimildir til þátttöku. Þá eru gerðar þær breytingar að sveitarfélög eiga ekki að setja sér sérstakar reglur um íbúakosningar heldur eiga þær að vera í samræmi við reglugerð sem innviðaráðuneyti setur. Þá er heimilað að íbúakosning fari fram með póstkosningu og einnig á ákveðnu tímabili í stað þess að vera eingöngu á tilteknum degi. Þá er bætt við sveitarstjórnarlög heimild til refsingar vegna háttsemi er tengist íbúakosningum sveitarfélaga sem ekki er til staðar  í dag.