Breytingar á jarðalögum

Alþingi samþykkti þann 17. maí sl. breytingar á jarðalögum nr. 81/2004 sem hafa töluverð áhrif á starfsemi sveitarfélaga. Lögin öðlast gildi 1. júlí næstkomandi.

Heilt yfir var sambandið fylgjandi breytingunum enda eru þær til þess fallnar að styrkja skipulagsvald sveitarfélaga. Tengill á breytingar á jarðalögum nr. 81/2004 á vef Alþingis.

Frá Hrunamannahreppi.

Athygli sveitarfélaga er vakin á eftirfarandi atriðum í lögunum: 

Brottfall á skyldu ráðherra til að samþykkja breytta landnotkun 

Með lögunum er felld brott skylda ráðherra til að samþykkja breytta landnotkun á landbúnaðarsvæðum og þess í stað mælt fyrir um skyldu til að gæta hagsmuna landbúnaðar betur við skipulagsgerð. Breytingin hefur það í för með sér að ákvörðun um breytta landnotkun er nú alfarið í höndum sveitarfélaga.  

Í nýrri 5. gr. laganna er kveðið á um að þegar ráðgerðar eru breytingar sem fela í sér að land sé leyst úr landbúnaðarnotum skuli sveitarstjórn leggja mat á hvort landið sé stærra en þörf krefur að teknu tilliti til nýtingaráforma; hvort önnur staðsetning komi til greina m.t.t. nýtingar, þ.e. á landi sem hentar síður til landbúnaðar og þá sérstaklega jarðræktar; áhrif breyttrar landnotkunar á aðlæg landbúnaðarsvæði og hvort girt verði fyrir möguleg búrekstrarafnot í framtíðinni. 

Í greininni segir jafnframt að sveitarstjórn taki ákvörðun um breytingar á landnotkun á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt skipulagsáætlun og fyrrgreindra sjónarmiða. Þá segir í skýringum með greininni að það felist ekki í henni að „landbúnaðarleg sjónarmið eigi endilega að ganga framar öðrum sjónarmiðum heldur fyrst og fremst að þeirra sé gætt á tilhlýðilegan hátt og þau metin gagnvart þeim sjónarmiðum öðrum sem þýðingu geta haft hverju sinni, sjónarmiðum sem leitt geta af stefnumótun í skipulagsáætlun viðkomandi sveitarfélags [...]“. 

Brottfall á skyldu ráðherra til að staðfesta landskipti 

Þá er felld brott skylda ráðherra til að staðfesta skipti á landi sem fellur undir gildissvið jarðalaga og þess í stað mælt fyrir um skyldu til að gæta hagsmuna landbúnaðar betur við skipti á landi. Breytingin hefur það í för með sér að staðfesting á beiðni um skiptingu lands á landbúnaðarsvæðum er nú alfarið í höndum sveitarfélaga.  

Samkvæmt nýrri 6. gr. laganna er gert ráð fyrir að skipting lands á landbúnaðarsvæðum fari eftir 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samrýmist skipulagsáætlunum. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að við beiðni um skiptingu eða sameiningu lands á landbúnaðarsvæðum sé sveitarstjórn heimilt að krefjast þess að umsækjandi geri grein fyrir áhrifum skiptanna á búrekstrarskilyrði og skal ákvörðun sveitarstjórnar um hvort fallist verði á skipti reist á heildstæðu mati á áhrifum þeirra samkvæmt skipulagsáætlun. Samkvæmt ummælum í greinargerð er gert ráð fyrir að sveitarfélög móti sér reglur um viðmið við ákvarðanir um hvenær fallist verði á skiptingu lands. 

Flokkun landbúnaðarlands 

Með lögunum er einnig lögfest með skýrum hætti skylda sveitarfélaga til að flokka land með tilliti til ræktunarmöguleika. Sambandið gerði töluverðar athugasemdir við að lögfesta slíka skyldu eins og fram kemur í almennri umsögn sambandsins til Alþingis sem og framhaldsumsögn þar sem þeirri skyldu er sérstaklega mótmælt. Meginröksemd sambandsins var sú að skyldan væri óþarflega íþyngjandi og hefði auk þess ekki verið kostnaðarmetin. Þá hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gefið út Leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni til ræktuna sem sambandið telur óþarflega ítarlegar. Nefndin féllst ekki á þau sjónarmið sambandsins og var skyldan til flokkunar því lögfest. Hins vegar segir í nefndaráliti atvinnuveganefndar um þetta atriði: 

„Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að samræma og undirbúa betur framkvæmd leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands í því skyni að vel tækist til við flokkunina og unnt yrði eftir mætti að draga úr kostnaði við þennan þátt skipulagsgerðar. Rætt var hvernig ríkisstofnanir, bæði Skipulagsstofnun, fagstofnanir landbúnaðarins og einkum Landgræðsla ríkisins, sem býr yfir mikilli þekkingu á jarðvegsmálum og kortagerð, gætu auðveldað sveitarfélögum þessa vinnu. Meiri hlutinn hvatti umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til að ráðast þegar í vinnu við að bregðast við þessum sjónarmiðum í samstarfi við yfirvöld skipulagsmála. Er nefndinni kunnugt um að sú vinna sé þegar hafin og í trausti þess að úr henni muni greiðast og með vísan til umfjöllunar í áliti meiri hluta nefndarinnar við 2. umræðu telur meiri hlutinn ekki ástæðu til breytinga á frumvarpinu að þessu leyti fyrir 3. umræðu.” 

Sambandið bindur því vonir við að unnið verði markvisst að því að gera nauðsynleg grunngögn aðgengileg fyrir sveitarfélögin til að auðvelda vinnuna og mun fylgja því eftir við viðkomandi aðila. Gangi þessi áform eftir ætti það að draga verulega úr kostnaði sveitarfélaga við flokkun landbúnaðarlands. 

Aðrar breytingar 

Hvað aðrar breytingar varðar má nefna styrkingu á forkaupsrétti ábúenda og ákvæðum um upplýsingar um eignarhald lögaðila undir erlendum yfirráðum. Þá gerði atvinnuveganefnd einnig breytingar er varða sölu á uppgræddu landi og mati á söluverði með það að markmiði að byggð haldist á sem flestum jörðum í sveitum landsins og að hentugar bújarðir í eigu ríkisins verð áfram nýttar til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi eins og kostur er.  

Sambandið hvetur sveitarfélögin til að kynna sér efni þessar breytinga sem fyrst enda hafa þær eins og áður segir töluverð áhrif á stjórnsýslu þessara mála hjá sveitarfélögunum.