Borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila

Það er borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Opinberum aðilum er heimilt að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur og að flytja starfsmenn tímabundið milli starfsstöðva og opinberra aðila til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu.

Samband íslenskra sveitarfélaga vekur athygli sveitarfélaga á að í gær, mánudaginn 30. mars, var samþykkt nýtt ákvæði í lög um almannavarnir er fjallar um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila.

Lagaákvæðið er svohljóðandi:

Það er borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Opinberum aðilum er heimilt að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur og að flytja starfsmenn tímabundið milli starfsstöðva og opinberra aðila til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum við slíkar aðstæður. Þó er starfsmaður undanþeginn framangreindri skyldu sé heilsufari hans, eða annars einstaklings sem hann ber ábyrgð á, svo háttað að öryggi hans og heilsu sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum störfum.
Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2021.

Áhrif þess á sveitarfélög

Þetta þýðir að sveitarfélögum er nú heimilt að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur og flytja starfsmenn tímabundið milli starfsstöðva til að sinna þeim verkefnum er hafa forgang á hættustundu. Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum nema ef þeir taka að sér starf sem almennt eru greidd hærri laun fyrir eða ef vinnuframlag er umfram hefðbundna vinnuskyldu. Þessi heimild er eingöngu gild meðan neyðarstig almannavarna er í gildi.

Dæmi er fallið geta undir þetta lagaákvæði

  • Hægt er að fela kennurum að kenna á öðrum tímum en vinnuskýrsla segir til um eða breyta kennslu í fjarkennslu. Eingöngu eru greiddar viðbótargreiðslur ef vinnuframlag eykst.
  • Ef dagdvöl aldraðra eða fatlaðra lokar er hægt að nýta þá starfsmenn til að veita heimaþjónustu innan velferðarþjónustunnar.
  • Í ljósi þess að íþróttamannvirki og sundlaugar hafa lokað er hægt að nýta þann mannafla í forgangsverkefni t.d. á sviði velferðarþjónustu eða fræðslumála.

Mikilvægt er að stjórnendur gæti meðalhófs ef þeir ætla að nýta sér þessa heimild og að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur. Æskilegt er að allar ákvarðanir um breytingar séu teknar í eins góðri samvinnu við starfsmenn og hægt er. Einnig þarf að hafa í huga að starfsmaður er undanþeginn framangreindri skyldu sé heilsufar hans, eða annars einstaklings sem hann ber ábyrgð á, svo háttað að öryggi hans og heilsu sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum störfum.

Hugsum í lausnum – nýtum starfskrafta

Sambandið hvetur sveitarfélög til að hugsa í lausnum þegar kemur að vinnuframlagi starfsmanna sem af einhverjum ástæðum geta ekki sinnt vinnuskyldu sinni með hefðbundnum hætti og geta ekki unnið heiman frá sér. Ef starfsmaður er í þeirri aðstöðu að geta ekki vegna fjölskylduábyrgðar sótt vinnu er hægt að finna verkefni er sinna má heiman frá eða á þeim tímum er starfsmaður getur farið af heimilinu. Sem dæmi má nefna símsvörun, svörun tölvupósta og stuðningssímtöl til hópa er njóta stuðnings félagsþjónustunnar. Hafi starfsstöð verið lokað vegna samkomubanns getur sveitarfélagið falið starfsmönnum það hlutverk, eftir atvikum að keyra út mat til aldraðra eða annarra þjónustuþega, annast innlit og/eða stuðningssímtöl til þjónustuþega, aðstoða í leik- og grunnskólum, aðstoða í búsetuúrræðum, við sorphirðu eða aðstoða við aðra grunnþjónustu er mikilvægt er að sinna og hugsanlega þurfa aukin mannafla nú um stundir.

Ávallt þarf þó að gæta að því að farið sé að öllum reglum almannavarna eftir því sem við á um samgöngubann, félagsfjarlægð, þrif, sóttvarnir o.s.frv. Hér þarf einnig að hafa í huga heilsufar starfsmanna, hæfni þeirra til að takast á við önnur störf sem og þarfir þeirra sem njóta þeirrar þjónustu sem um ræðir.

Sambandið hefur útbúið spurt og svarað með helstu spurningum varðandi starfsmannamál á tímum COVID-19 og eru stjórnendur hvattir til að kynna sér efni þess

Sé óskað eftir frekari upplýsingum en þar koma fram er hægt að hafa samband við lögfræðinga okkar: