Borgað þegar hent er – hraðall

Ísafjarðarbær og Grímsnes- og Grafningshreppur hafa undirritað viljayfirlýsingu ásamt Húsnæðis og mannvirkjastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að taka þátt í tilraunaverkefninu ,,Borgað þegar hent er – hraðall“.

Verkefnið tengist nýjum kröfum til sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs vegna laga nr. 103/2021 sem gera það að verkum að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi. Í lögunum er jafnframt gerðar auknar kröfur um sérstaka söfnun við heimili og fyrirtæki og bætta meðhöndlun úrgangs og koma flestar lagakröfurnar til framkvæmda 1. janúar 2023.

,,Borgað þegar hent er hraðallinn“ hefur það að markmiði að aðstoða sveitarfélög að innleiða nýjar lagakröfur um breytingar á innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs, svokallaðra sorphirðugjalda. Reynslan sem hlýst af verkefninu mun hafa þýðingu fyrir öll sveitarfélög en eftir áramót ber þeim að tryggja að greitt sé í samræmi við magn og tegund úrgangs sem til fellur hjá viðkomandi úrgangshafa, bæði hjá íbúum og sveitarfélögum. Slíkt fyrirkomulag við innheimtu kallast ,,Borgað þegar hent er kerfi“. Innleiðing slíkra kerfa eru í raun útfærsla á mengunarbótareglunni, sá borgar sem mengar, og er mikilvægur liður í innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi. Fast gjald, sem flest sveitarfélög innheimta í dag, skal takmarkast við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það.

Fyrir liggur skýrsla sem ráðgjafafyrirtækið Efla vann fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga sem sýnir að innheimta eftir stærð og fjölda íláta, svokölluð rúmmálsleið, er einfaldasta leiðin til að innleiða BÞHE kerfi við innheimtu. Rúmmálsleiðin mun uppfylla kröfur lagabreytinganna og krefst þess að sveitarfélög kortleggi fjölda og stærð íláta og útfæri gjaldskrá í takt við BÞHE kerfi. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur umsjón með tilraunaverkefninu og markmiðið er að klára að innleiða það með þátttökusveitarfélögunum fyrir áramót svo að búið verði að fá reynslu á þetta nýja innheimtufyrirkomulag og kortleggja hvað felst í því að innleiða það.

Tengdir tenglar: