Borgað þegar hent er hraðall – Tvö sveitarfélög að verða tilbúin

Tvö áræðin sveitarfélög eru komin vel af stað með að innleiða Borgað þegar hent er kerfið, sem er aðferð við innheimtu sem sveitarfélögum er gert að innleiða fyrir komandi ár, samkvæmt nýjum hringrásarlögum sem eru að taka gildi.

Borgað þegar hent er hefur verið á vörum allra þeirra er láta sig úrgangsmál varða undanfarnar viku og mánuði og margir eru nú að brjóta heilann um það hvernig eigi að útfæra þetta blessaða kerfi. Til eru margar mismunandi útfærslur af BÞHE kerfum, sem í grófum dráttum er skipt upp í kerfi sem nota annars vegar rúmmál sem viðmið og hins vegar þyngd. Útfærslur eru mishentugar fyrir sveitarfélögin og geta þau valið um að nýta sér eitt eða fleiri kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs.

Grímsnes- og Grafnhingshreppur og Ísafjarðarbær

Tvö sveitarfélög, Grímsnes- og Grafningshreppur og Ísafjarðarbær, taka þátt í sérstökum Borgað þegar hent er hraðli, sem er á vegum SÍS og HMS. Verkefninu miðar vel áfram og bæði þessi sveitarfélög fara þá leið sem verkfræðistofan Efla mælir með: hin svokallaða rýmisleið. Þau eru nú ríflega hálfnuð með hraðalinn og ætla sér að vera klár og tilbúin um næstu áramót á tilsettum tíma! Mikil og góð reynsla hefur skapast með þessu mikilvæga fordæmi.

Verkefnið gerir ráð fyrir að öllum sveitarfélögum verði gert kleift að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs hjá sínum íbúum í gegnum Álagningarkerfi HMS, í takt við rúmmál þess úrgangs sem fellur til sem var sú leið sem niðurstöður Eflu bentu til að væri fær og hagkvæm leið.

Með þessari leið má innleiða kerfið á tíu vikum; álagningarkerfið er tilbúið, það eru komin góð fordæmi og allt klárt fyrir góða og markvissa innleiðingu á þessu mikilvæga kerfi sem á að leiða til minni úrgangs og hagkvæmni fyrir alla: íbúa, sveitarfélög og atvinnulíf.