Betri framtíð fyrir landsbyggðirnar

A better future for Europe´s rural areas er athyglisverð skýrsla sem sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins samþykkti á haustþingi sínu í fyrra. Fjallað er með greinargóðum hætti um tækifæri og áskoranir dreifbýlla svæða og hvernig takast megi á við þau.

A better future for Europe´s rural areas er athyglisverð skýrsla sem sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins samþykkti á haustþingi sínu í fyrra. Fjallað er með greinargóðum hætti um tækifæri og áskoranir dreifbýlla svæða og hvernig takast megi á við þau.

Sveitarstjórnarþingið leggur í skýrslunni áherslu á að félagslegur, efnahagslegur og umhverfislegur fjölbreytileiki einkenni dreifbýl svæði í Evrópu. Það lýsir sér m.a. í því, að á sama tíma og sum dreifbýl svæði séu á meðal þeirra efnuðustu og skilvirkustu í viðkomandi löndum, eru önnur að kljást við íbúaflótta, hækkandi meðalaldur og vaxandi fátækt.  

Þessi munur hafi orðið enn meira áberandi eftir efnahagshrunið 2008, með þeim afleiðingum að dreifbýl svæði sem liggja nálægt borgum hafi mörg hver vaxið, öfugt við svæði sem liggi lengra í burtu og eigi í erfiðleikum með að ná sér á strik.

Í ályktun þingsins, sem er hluti skýrslunnar, eru sveitarstjórnir á dreifbýlum svæðum hvattar til að vekja athygli almennings og þeirra sem bera ábyrgð á opinberri stefnumótun á fjölbreytileika dreifbýlla svæða; beina sjónum að auðlindum þeirra og möguleikum fremur en vandamálum.

Þingið hvetur sveitarstjórnir enn fremur til að móta staðbundnar byggðastefnur í samvinnu við alla þá sem geta lagt hönd á plóg til framþróunar, til að móta lágmarksþjónustustaðla til að tryggja samfellu í nauðsynlegri grunnþjónustu, til að bæta menntun og þjálfun, og til að styrkja frumkvöðla og nýsköpun og renna þannig fjölbreyttari stoðum undir efnahag svæðis.

Þá beinir þingið því til að ráðherranefndar Evrópuráðsins að aðildarríki þess þrói nýja tegund af byggðastefnu, sem taki á sérstöðu hvers svæðis fyrir sig og byggi á þverfaglegri svæðisbundinni nálgun.

Greinargerð sem fylgir ályktun og tilmælum er einnig allrar athygli verð, en þar er m.a. farið yfir hvernig O.E.C.D. og ESB  hafi horfið frá top down nálgun í byggðamálum og vinni nú m.a. að því að virkja aðila og auðlindir hvers svæðis fyrir sig.  

Þess má svo geta, að skýrslan þykir, fyrir þá aðgengilegu yfirsýn sem hún veitir, áhugaverð fyrir alla sem hafa áhuga á íslenskum byggðamálum.