Fimm ráðherrar eða félags- og barnamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ákváðu nýlega að greiða í sameiningu götu tilraunaverkefnis, sem gengið hefur undir nafninu Bergið Headspace. Verkefnið felur í sér rekstur á þverfaglegu móttöku- og stuðningsúrræði með einstaklings- og áfallamiðaða þjónustu fyrir börn og ungmenni.
Fimm ráðherrar eða félags- og barnamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ákváðu nýlega að greiða í sameiningu götu tilraunaverkefnis, sem gengið hefur undir nafninu Bergið Headspace.
Verkefnið felur í sér rekstur á þverfaglegu móttöku- og stuðningsúrræði með einstaklings- og áfallamiðaða þjónustu fyrir börn og ungmenni.
Headspace er vettvangur sem auðveldar börnum og ungmennum að hafa samband við aðila sem veitir stuðning og ráðgjöf út frá þörfum hvers og eins og beinir málum þeirra í réttan farveg. Áherslan er á einfölduð ferli og skilvirka þjónustu. Einnig er horft sérstaklega til UT-lausna og fjarþjónustu.
Fyrirmyndir Headspace má finna í Ástralíu og Danmörku þar sem slík úrræði hafa gefið góða raun, en markmiðið er að ungu fólki yngra en 25 ára standi skilvirk þjónusta til boða þegar á þarf að halda.
Tilraunaverkefnið er til tveggja ára og hefur um nokkurt skeið verið í burðarliðnum. Frumkvöðlar þess eru Sigurþóra Bergsdóttir og Dr. Sigrún Sigurðardóttir, lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, ásamt fleirum.
Ráðherrarnir verja 30 milljónum króna á ári til verkefnisins þ.m.t. í formi stöðugilda, en aðkoma viðkomandi ráðuneyta byggir á tillögum frá stýrihópi stjórnarráðsins í málefnum barna. Einnig er gert ráð fyrir að leitað verði eftir frekari stuðningi hjá fyrirtækjum og aðilum með samfélagslega ábyrgð.
Þá hefur stýrihópur í málefnum barna einnig lagt til að gerð verði rannsókn á líðan barna og ungmenna á Íslandi, samhliða tilraunaverkefni Bergsins Headspace. Kannaðar verði mögulegar ástæður vanlíðunar og kvíða og þjónustuúrræði kortlögð sem og nýting þeirra og árangur. Stefnt verður að því að heildarmynd af kerfinu í núverandi mynd liggi fyrir innan eins árs ásamt tillögum um umbætur.
Ljósmyndin hér að ofan var tekin á ráðstefnu Geðhjálpar og Bergsins um geðheilbrigði ungs fólks og innleiðingu Headspace aðferðarfræðinngar með tilkomu Bergsins. Undirritun ráðherranna fimm vegna tilraunaverkefnisins fór fram á ráðstefnunni.