Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin

Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.

Úrgangur í fráveitu er vandamál um allt land. Auk þess að skaða umhverfið og þyngja rekstur fráveitukerfa, hleypur kostnaður sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar rusls í fráveitum á tugum milljóna króna á ári.

Vegna ástandsins sem ríkt hefur í samfélaginu eyða fleiri auknum tíma heima hjá sér og þar með eykst úrgangsálag á fráveitukerfin. Stærsta vandamálið eru blautþurrkur og/eða sótthreinsiklútar, auk smokka, tannþráðar og eyrnapinna.

Augljóslega þarf að skerpa á skilaboðunum um hvað má fara í klósettið og hvað ekki. Verkefnið „bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið“ er samvinnuverkefni Umhverfisstofnunar og Samorku í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda á landinu. Framleitt hefur verið skemmtilegt kynningarefni á mannamáli sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Markmiðið er að draga úr rusli í fráveitu og draga um leið úr álagi á umhverfið okkar. Verkefninu verður hleypt af stokkunum fimmtudaginn 19. nóvember, sem er alþjóðlegur dagur klósettsins.

Umhverfisstofnun og Samorka bjóða fram krafta sína í umfjöllun um það þarfa samfélagsverkefni; að minnka rusl í fráveitum. Við vonum að sem flestir séu til í að taka þátt í að leggja verkefninu lið.

Allt kynningarefni má finna á www.klosettvinir.is.

Nánari upplýsingar veita:
Umhverfisstofnun: Björn Þorláksson
Samorka: Lovísa Árnadóttir, s. 698-7568, lovisa@samorka.is