Bæjar- og borgarstjórar undir vaxandi þrýstingi

Vorþing sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins 2019 fór fram nú nýlega í Evrópuhöllinni í Strassbourg. Umræður um lýðræðisáskoranir í löndum Evrópuráðsins settu sterkan svip á þingið og voru samþykktar ályktanir sem eiga margar hverjar brýnt erindi við evrópsk sveitarfélög.

Vorþing sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins 2019 fór fram nú nýlega í Evrópuhöllinni í Strassbourg. Umræður um lýðræðisáskoranir í löndum Evrópuráðsins settu sterkan svip á þingið og voru samþykktar ályktanir sem eiga margar hverjar brýnt erindi við evrópsk sveitarfélög.

Af þeim helstu má nefna ályktun um þóknanir til sveitarstjórnarmanna, um aðgerðir gegn frændhygli (nepotism) í ráðningum og vernd uppljóstrara á sveitarstjórnarstigi. 

Þá var einkar áhugaverð umræða í sveitarstjórnardeild þingsins um þann þrýsting sem bæjar- og borgarstjórar eru undir vegna ofbeldishótana og virðist vera um vaxandi vandamál að ræða um alla Evrópu. Einnig var áhugaverð umræða um gjána á milli þéttbýlis og dreifbýlis og mátti heyra sambærilegar frásagnir og við þekkjum hér á landi, s.s. um húsnæðisvanda í dreifbýli.

Sveitarstjórnarþingið kemur saman tvisvar á ári og á Ísland þrjá fulltrúa. Hlutverk þess er að styðja við staðbundið lýðræði í aðildarríkjum Evrópuráðsins og innleiðingu Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Þingfulltrúar eru samtals 324, kjörnir á bæði svæða- og sveitarstjórnarstigi og sitja þeir þingið í umboði um 200.000 sveitarfélaga og svæða í 47 aðildarlöndum Evrópuráðsins. 

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tilnefnir í íslensku sendinefnd þingsins. Hana skipa nú Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings og nýr formaður sendinefndarinnar, Bjarni Jónsson sveitarstjórnarmaður úr Skagafirði og Gunnhildur Ingvarsdóttir frá Fljótdalshéraði. Þá er Lilja Hrund Lúðvíksdóttir, varabæjarfulltrúi í Garðabæ, æskulýðsfulltrúi Íslands.

Vorþingið fór fram dagana 2. til 4. apríl sl.

Ljósmynd: Kristján Þór Magnússon, Bjarni Jónsson, Gunnhildur Ingvarsdóttir, Anna Guðrún Björnsdóttir og Lilja Hrund Lúðvíksdóttir.