28. okt. 2016

Auknar tekjur sveitarfélaga af ferðamönnum

Á vettvangi sambandsins hefur ítrekað verið rætt um mikilvægi þess að sveitarfélögin fái auknar tekjur af komu ferðamanna til landsins. Eins og staðan er í dag fá sveitarfélög tekjur af útsvari þeirra sem vinna við ferðaþjónustu auk fasteignaskatta af mannvirkum sem tilheyra ferðaþjónustunni. Þessar tekjur renna af mismiklum þunga til sveitarfélaga og telja sum sig verð nokkuð afskipt vegna þess. Þau telja útgjaldaþrýsting vera fyrir hendi en litlar sem engar tekjur í augnsýnt til að standa undir nauðsynlegum kostnaði við uppbyggingu og fleira.

Það dylst þó fáum að fram til þessa hafa sveitarfélögin ekki verið samstíga þegar kemur að því álitaefni hvernig skipta skuli auknum tekjum af ferðaþjónustu milli sveitarfélaga. Það er erfitt að sannfæra ríkisvaldið um að beina auknum tekjum af ferðaþjónustu til sveitarfélaga ef sveitarfélögin eru ekki samstíga í því hvernig þeim skuli dreift á milli þeirra. Til að leitast við að skerpa og samræma stefnu sveitarfélaganna í þessum efnum ákvað stjórn sambandsins að skipa starfshóp þriggja stjórnarmanna til þess að undirbúa frekari umræðu um þetta mál. Starfshópurinn hefur skilað skýrslu sem verður kynnt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga nú í september.

Í skýrslunni er farið yfir helstu gjaldtökuleiðir sem verið hafa til umræðu hér á landi. Niðurstaða starfshópsins er að leggja áherslu á mikilvægi þess  að tryggja sveitarfélögunum tekjur vegna núverandi útgjalda vegna ferðamanna og eins til að mæta enn frekari aukningu þeirra án þess að innviðir á ferðamannastöðum bíði varanlegan skaða af.

Starfshópurinn leggur til að lög um gistináttaskatt verði endurskoðuð þannig að skatturinn verði hækkaður, undanþágum verði einnig fækkað og að tekjur af skattinum renni a.m.k. að stærstum hluta beint til sveitarfélaga, til að standa undir uppbyggingu innviða fyrir ferðaþjónustu. Undir slíka uppbyggingu geta t.d. fallið innviðir á ferðamannastöðum, markaðsstarf, kostnaður við viðburði fyrir ferðamenn, o.fl.

Starfshópurinn fjallaði einnig um hve stór hluti innheimts gistináttaskatts ætti að renna beint til þess sveitarfélags þar sem ferðamaður gistir. Um 64% af öllum gistinóttum er á höfuðborgarsvæðinu, þar af langflestar í Reykjavík. Þótt ferðamenn gisti í höfuðborginni fara margir þeirra í dagsferðir í nálæga landshluta og valda þar álagi á náttúru og innviði. Þótt sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu verði fyrir útgjöldum vegna álags á innviði og þjónustu við ferðamenn er það niðurstaða starfshópsins að engin sátt geti orðið um að þau fengju beint í sinn hlut allar tekjur af gistináttaskatti. Í því sambandi ræddi starfshópurinn um að skiptingin gæti orðið sú að helmingur eða mögulega tveir þriðju hlutar af skattinum renni beint til viðkomandi sveitarfélags en hinn hlutinn renni til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, sem styður uppbyggingu á ferðamannastöðum um allt land.

Starfshópurinn leggur einnig til að heimilt verði að taka bílastæðagjald við ferðamannastaði, til að standa undir uppbyggingu þeirra. Lögð er áhersla á að í fyrirhuguðu frumvarpi um breytingar á umferðarlögum verði mælt skýrt fyrir um heimildir sveitarstjórna til að ráðstafa tekjum af bílastæðagjöldum til að standa straum af uppbyggingu og kostnaði á þeim ferðamannastöðum þar sem gjaldtaka fer fram.

Skýrsla starfshópsins er án efa gagnlegt innlegg í málið en tekið skal fram að stjórn sambandsins mun ekki fjalla um skýrsluna fyrr en að lokinni umfjöllun um hana á fjármálaráðstefnu 22. september. Þar mun S. Björn Blöndal, borgarfulltrúi, sem ætti sæti í starfshópnum, kynna skýrsluna. Fleiri erindi um ferðamál verða á fjármálaráðstefnu þennan dag, þar sem fjallað verður annars vegar um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminjum og hins vegar verður kynnt rannsókn á útgjöldum sveitarfélaga vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu.